Innlent

Aðalvandinn að fá ekki of mikinn afla

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Mjög góð veiði er nú úr Norsk-íslenska síldarstofninum skammt austur af landinu og er aðalvandi skipstjórnarmanna að fá ekki of mikinn afla miðað við vinnslugetuna um borð.

Veiðisvæðið er aðeins 30 til 40 sjómílur undan landi og fékk eitt skipanna svo mikinn afla í veiðarfærin í gær að þau sprungu. Skipstjórar reyna að takmarka veiðarnar við rúmlega 200 tonn á sólarhring til þess að það hafist undan að flaka og frysta aflann en nokkur skipanna hafa líka landað hluta afla síns til vinnslu í Neskaupstað.

Sem dæmi um mikinn afla fékk eitt skipanna 140 tonn á aðeins þremur klukkustundum í gær. Þeim er því ekki haldið til veiða nema hluta úr sólrhring þótt vinnslan sé stanslaust í gangi allan sólarhringinn.

Síldin er öll veidd í flottroll og er ekkert nótaskip á veiðisvæðinu. Kolmunnaveiðin í íslensku lögsögunni hefur líka glæðst síðustu dagana og eru nokkur stór fjölveiðiskip á þeim veiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×