Innlent

Nýjasta myndband Lay Low frumsýnt á Vísi

Tónlistarkonan Lay Low sendir frá sér nýtt myndband við lagið The Backbone um leið og hún sendir frá sér tveggja laga vínyl plötu í takmörkuðu og númeruðu upplagi. Lögin tvö eru The Backbone og Rearrangement. Það fyrra er nýtt frumsamið lag en það síðarnefnda er ensk útgáfa af laginu Gleym mér ei sem kom út á breiðskífu Lay Low, Brostinn strengur, sem hún sendi frá sér árið 2011. Niðurhalskóði fylgir vínylnum þannig að fólk getur náð í lögin löglega á netinu.

Myndbandið gerði kvikmyndagerðarkonan Halla Kristín Einarsdóttir en hún vakti athygli fyrir heimildarmynd sína Konur á rauðum sokkum og vann meðal annars Skjalborgarverðlaunin og Nordic Polar verðlaunin fyrir hana. „Við vorum báðar á tónlistarhátíðinni á Rauðasandi í sumar og Halla stakk upp á þessu. Hún sá þetta fyrir sér enda með gott auga. Við unnum bara með það sem var í umhverfinu, sandinn og sjóræningjahúsið sem myndaði andstæður og stemmingu og hentaði laginu," segir Lay Low um tilurð myndbandsins.

Lay Low segir að kveikjan af laginu hafa verið límmiði sem var búinn að hanga lengi upp á vegg á vinnustofunni hjá henni. Á honum stóð "have a nice forever" undir mynd af brosandi tungli. Það má því segja að límmiðinn hafi orðið af lagi. „Þessi setning var búin að brosa við mér svo lengi og átti skilið að komast í lag hjá mér. Þetta var bara hugdetta sem gerðist um leið og ég var að glamra fram nýja laglínu á gítarinn minn," segir Lay Low í tilkynningu.

Lay Low hefur undanfarið verið á löngum tónleikaferðalögum með Of Monsters and Men um heiminn og á eigin vegum en er nú nýflutt í sveitina rétt fyrir utan Hvergerði og einbeitir þar að því að klára nýja breiðskífu. „Ég vildi breyta um umhverfi og komast í kyrrðina. Ég er með stórt hús þar sem ég get verið með hljóðverið mitt og æfingaraðstöðu sem hentar mér vel í þeim pælingum sem ég er í núna. Ég er að vinna með hljóðheiminn sem þróaðist á Brostnum streng og ætla að pæla meira í þá veru í þessu nýja efni sem er að fæðast."

Lay Low kemur fram á Iceland Airwaves þar sem hún spilar í Fríkirkjunni föstudaginn 2. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×