Innlent

Þrjú fíkniefnamál á Landsmóti

Breki Logason skrifar
Frá Landsmótinu á Hellu
Frá Landsmótinu á Hellu

Unglingar á Landsmóti hestamanna á Hellu voru að skemmta sér fram undir morgun að sögn vaktstjóra lögreglunnar. Gestur á mótinu segist lítið hafa getað sofið í nótt vegna láta en lögregla segir ekki mikil læti hafa verið á svæðinu. Einn var settur í fangageymslu og þrjú fíkniefnamál komu upp. Búist er við 12-15 þúsund manns um helgina og verður gæsla aukin í samræmi við það.

Móðir stúlku sem keppir á mótinu sem hafði samband við Vísi segist ekkert hafa getað sofið vegna láta á tjaldsvæðinu í nótt.

Vaktstjóri lögreglunnar á svæðinu segir engar líkamsárásir hafa verið kærðar en auka mannskapur hefur bæst í lið lögreglunnar sem býst við auknum fjölda um helgina. Í gærkvöldi voru tæplega sjö þúsund manns á svæðinu en búast má við að sú tala hækki allverulega um helgina.

Telma Tómasson upplýsingafulltrúi Landsmótsins segist sjálf gista á tjaldsvæðinu, hún hafi verið með eyrnatappa og því sofið ágætlega.

„Upplýsingar frá lögreglu eru þær að það hafi verið fremur rólegt og tíðindalaust en einhver ölvun var eins og gengur og gerist. Þetta virðast hinsvegar vera einangruð tilvik sem erfitt er að eiga við."

Telma segir að tekið verði hart á þessum tilfellum því það sé eindregið markmið mótshaldara að á tjaldsvæðinu ríki ró og friður eftir miðnætti.

„Veðurspáin er góð og hápunktar mótsins eru núna um helgina."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×