Lífið

Fyrsta „grípa með-humarsúpan“ frá ungum athafnakokki á Hornafirði

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jón Sölvi býður glaðbeittur fram súpuna.
Jón Sölvi býður glaðbeittur fram súpuna. MYND/Sigurður Mar

Það er óhætt að halda því fram að frumleikinn sé skammt undan hjá Hornfirðingum um helgina. Þannig teflir ungur athafnamaður, matreiðslumaðurinn Jón Sölvi Ólafsson, fram því sem að öllum líkindum er fyrsta „grípa með-humarsúpan" (e. take away) á landinu.

„Ég eignaðist skyndibitastað og byrjaði á hamborgurum 15. nóvember í fyrra. Svo fylgdu pizzusneiðar í kjölfarið og í sumar ákváðum við að fara út í humarsúpu. Við ætluðum að byrja á henni í júní en ákváðum svo bara að hleypa henni af stokkunum á humarhátíðinni," útskýrir Jón Sölvi.

Kynnir súpuna í bás á hátíðinni
Þetta er gripurinn. Nýgrillaður humar á spjóti fylgir.MYND/Björgvin Hilmarsson

Auk lúgusjoppu sinnar, sem gengur undir nafninu Kokkur, er Jón Sölvi með bás á humarhátíðinni þar sem hann kynnir afurðir sínar en þar siglir humarsúpan nýja í fararbroddi. „Við erum með rosalega gott hráefni til að vinna úr hérna á Hornafirði og þá er ég ekki bara að tala um humar heldur líka bleikju og fleiri afurðir," segir Jón Sölvi.

Talið snýst að humarhátíðinni sjálfri og segir Jón Sölvi hana hafa farið mjög vel af stað. Mikið hafi verið að gera í nótt og logandi stemmning í bænum. Hann hafi bókstaflega verið að drukkna í humarsúpunni þar sem hann stóð í ströngu við að dæla henni í súpuþyrstan pupulinn við kynningarbásinn. Þess má geta að tréspjót með nýgrilluðum humri fylgir með súpunni auk þess sem hún er sprottin upp úr samstarfi Kokks og Matís sem lætur í té aðstoð faglærðra matvælafræðinga og -hönnuða.

Humarhátíð Hornfirðinga hófst í vikunni og verður þar mikið um dýrðir að sögn vefjarins Hornafjörður.is. Kveðast Hornfirðingar leggja á það ríka áherslu að hátíðin í ár höfði til sem flestra aldurshópa.

Svo sem nafn hátíðarinnar ber með sér leika matur og matargerð stórt hlutverk um helgina og fer humarinn þar fremstur í flokki. Má nálgast fjölda uppskrifta á Hornafjarðarvefnum auk ítarlegrar hátíðardagskrár.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.