Innlent

Tignarleg brú rís í Djúpinu

Farið er að sjást í bogana á einni tignarlegustu stálbogabrú sem rísa mun hérlendis. Hún brúar Mjóafjörð í Djúpi og stórbætir aðalleiðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur þegar hún verður opnuð eftir fjóra mánuði.

Verið að breyta síðasta hluta Djúpvegar úr gamaldags malarvegi í nútíma þjóðveg og er þetta umfangsmesta vegagerð í landinu um þessar mundir ef Héðinsfjarðargöngin eru undanskilin. Slitlag er að komast á langan kafla við vestanverðan Ísafjörð, ný brú ásamt grjótfyllingu er komin yfir Reykjarfjörð, fyllingin gleypti reyndar í sig tvöfalt meira grjót en menn áætluðu vegna sigs, verið er leggja veg yfir Vatnsfjarðarháls, en það er hins vegar þverun Mjóafjarðar sem er stærsti verkþátturinn, með tignarlegri stálbogabrú, sem líta mun svona út fullbúin.

Boginn mun á næstu vikum teygja sig upp í 22 metra hæð yfir sjávarmáli en það eru starfsmenn Stáls og suðu sem sjá um að sjóða bitana saman.

Þungur straumur sjávarfalla um þröngt sundið auðveldar mönnum ekki að smíða þessa hundrað metra löng brú. Um sjötíu manns vinna við vega- og brúargerðina og það vekur athygli að þeir flestir Vestfirðingar. Áformað er að brúin verði opnuð umferð 1. nóvember næstkomandi, innan fjögurra mánaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×