Erlent

Líkið fundið í Kaupmannahöfn

Kaupmannahafnarbúi, sem var að viðra hundinn sinn í morgun, fann líkið af manninum sem fætur og hönd fundust af á götu í Kaupmannahöfn í fyrradag. Líkið er sagt vera af Dana en lögregla hefur birt mynd af manninum í þeirri von að geta borið kennsl á hann. Líkið fannst snemma í morgun í húsasundi við íbúð númer 106 við Aðalgötu í miðborg Kaupmannahafnar. Það fannst nokkur hundruð metrum frá Klerkagötu þar sem líkamshlutarnir fundust við ruslagám snemma á laugardagsmorgun. Danskir fjölmiðlar hafa eftir lögreglunni í Kaupmannahöfn að líkið hafi verið í þremur hlutum þar sem það fannst við tröppur innst í sundinu. Líkið er sagt vera af dönskum karlmanni á fertugsaldri. Það hefur nú verið sent til krufningar en fyrstu rannsóknir gáfu til kynna að maðurinn hafi ekki verið myrtur í húsasundinu þar sem hann fannst. Fótleggjunum tveimur og handleggnum sem fundust á laugardagsmorgun virðist hafa verið stillt upp við bretti við iðnaðarruslagám, en framkvæmdir standa yfir á svæðinu. Fótleggir voru sagaðir af við læri og handleggur við olnboga. Lögregla segir lækni hafa metið það svo að sárin séu ekki á þeim stöðum sem tíðkist að miða við í krufningu. Þvert á móti séu áverkarnir unnir á viðvaningslegan hátt. Lögregla lýsir enn eftir vitnum og hvetur íbúa á svæðinu að hafa augun opin fyrir hlutum sem gætu tengst málinu. Nú rétt fyrir hádegið birti lögreglan mynd á Netinu af andliti mannsins í von um að geta borið kennsl á hann. Maðurinn var 190-195 sentímetrar á hæð, hvítur á hörund, á milli þrítugs og fertugs, skandinavískur í útliti með ljóst krullað hár, tyveggja daga gamla skeggbrodda og blágræn augu. Líkið af manninum var klætt í svartar nærbuxur. Ofbeldisfréttir hafa verið fyrirferðamiklar í dönskum fjölmiðlum um páskahelgina. Tveir menn voru skotnir í maga í Hundige-hverfinu í suðurhluta Kaupmannahafnar síðdegis á laugardag. Skotbardaginn var sá þriðji á svæðinu á vikutíma. Fjölmiðlar tala um stríð milli gengja og hefur sjónvarpsstöðin TV 2 heimildir fyrir því að uppgjör eigi sér stað í genginu Black Cobra. Tveir menn voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í gær vegna atburðarins, tvítugur Íraki og tæplega þrítugur maður frá Líbanon. Danskir netmiðlar hafa birt mynd af líkinu, þar á meðal Berlingske tidende.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×