Erlent

Gagnrýna Íslendinga vegna Fischers

Koma Bobby Fischer til Íslands hefur orðið ýmsum erlendum fjölmiðlum umfjöllunarefni nú yfir páskahelgina. Bandaríska stórblaðið The Washington Post birti á sunnudag leiðara þar sem Íslendingar eru skammaðir fyrir að ganga svo langt í greiðasemi sinni við þennan fræga - og alræmda - mann sem raun ber vitni með veitingu ríkisborgararéttarins. "Þetta er sorglegur dagur fyrir Ísland, sem leggur nafn sitt með virkum hætti við mann sem fyrir löngu hefur yfirgefið allt velsæmi," skrifar leiðarahöfundur Washington Post. Í leiðaranum er því lýst að Fischer sé hetja á Íslandi vegna ástar landsmanna á skáklistinni og þeirrar staðreyndar að hápunkt ferils síns upplifði Fischer í Reykjavík, er hann sigraði Boris Spasskí í heimsmeistaraeinvíginu árið 1972. "Íslendingar mega velja að muna þann hápunkt þaðan sem Fischer féll. En þing lýðræðisþjóðar ætti ekki að leiða hjá sér það hyldýpi sem Fischer hefur fallið í síðan dýrðardögum hans lauk." Vísar leiðarahöfundurinn þar einkum til hatursfullra ummæla Fischers um gyðinga. Að sögn blaðsins verðskuldaði Fischer sennilega frekar að fólk kenndi í brjósti um hann en hataðist, "en hann ætti sannarlega ekki að njóta heiðurs af hálfu löggjafarþings - ekki nema hinir nýju landar hans vilji að þjóðin skammist sín í hvert sinn sem þessi skákmaður opnar munninn." Breska blaðið The Guardian er annað þekkt stórblað sem fjallar um Fischer-málið í gær. Blaðamaður blaðsins lýsir eltingarleik sínum við Fischer og blaðamannafundinum á föstudaginn langa. Í greininni gerir höfundur góðlátlegt grín að íslenskum kollegum sínum. "Ég spyr um skák; rússneskir sjónvarpsfréttamenn spyrja um Kasparov; Íslendingarnir spyrja Fischer hvort honum líki síld." Hann lætur þess einnig getið að eitt íslensku blaðanna - og á þar við Fréttablaðið - hafi þegar kveðið upp úr um að Fischer sé næstfrægasti Íslendingurinn, á eftir Björk. "En ég þori að veðja að Björk kann ekki Caro-Kann-vörnina," skrifar blaðamaður Guardian og staðfestir þar með hve einlægur aðdáandi skáklistar Bobby Fischer hann er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×