Erlent

Stjórnarmyndun gengur illa

Grískur almenningur fylgist grannt með fréttum þessa dagana.
Grískur almenningur fylgist grannt með fréttum þessa dagana. nordicphotos/AFP
Alexis Tsipras, leiðtogi bandalags vinstriflokka á Grikklandi, gafst í gær upp á því að mynda ríkisstjórn. Keflið fer nú til Evangelos Venizelos, leiðtoga sósíalistaflokksins Pasok.

Tsipras vildi mynda stjórn sem næði samstöðu um að hafna samkomulagi, sem bráðabirgðastjórn Pasok og íhaldsflokksins Nýs lýðræðis gerði við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um fjárhagsaðstoð.

Antonis Samaras, leiðtogi íhaldsmanna, sagði það leiða til „hruns inn á við og gjaldþrots út á við,“ sem óhjákvæmilega hefði í för með sér að Grikkland segði skilið við evruna og færi úr Evrópusambandinu.

„Gríska þjóðin hefur ekki gefið neinum umboð til að eyðileggja landið. Þvert á móti,“ sagði Samaras, sem sjálfum tókst ekki að mynda ríkisstjórn í kjölfar kosninganna, sem haldnar voru síðastliðinn sunnudag.

Venizelos mun væntanlega fá stjórnarmyndunarumboð í dag, en ekki eru taldar miklar líkur á að það takist. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×