Erlent

Vart hugað líf eftir að hafa bjargað eiganda sínum

Bolabíturinn Lilly.
Bolabíturinn Lilly.
Bolabítur í Massachusetts í Bandaríkjunum bjargaði eiganda sínum frá því að verða fyrir lest fyrr í vikunni. Konan slasaðist ekki en hundurinn er hins vegar stórslasaður og er vart hugað líf.

David Lanteigne, sem er lögreglumaður í Boston, bjargaði bolabítnum Lilly úr dýraathvarfi fyrir nokkrum árum. Hann vonaðist til að tíkin myndi hjálpa móður sinni að takast á við áfengissýki.

Það var síðan í gærkvöld þegar móðir Davids missti meðvitund í útjaðri Boston. Hún hafði verið á gangi með Lilly þegar atvikið átti sér stað. Hún féll á lestarteina og í fjarska nálgaðist lest.

„Lilly hefur annað hvort reynt að ýta við móður minni eða beinlínis reynt að draga hana af teinunum," sagði David. „Þau hreinlega höfðu ekki nægan tíma. Lilly lagðist fyrir framan hana þegar lestin nálgaðist og tók af henni höggið."

Lilly missti framfætur sína í slysinu. Hún er nú undir umsjá dýralækna í Boston sem reyna að bjarga lífi hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×