Skoðun

Að hlusta á ungmenni

Sigurþóra Bergsdóttir skrifar

Bergið headspace er stuðnings og ráðgjafarþjónusta fyrir ungt fólk, undir 25 ára í fallegu húsi við Suðurgötu í Reykjavík.  Við bjóðum ungmennum að koma til okkar, hitta fagmenntaðan ráðgjafa og tala um hvað það er sem á þeim liggur. Þannig erum við til staðar fyrir ungt fólk á þeirra forsendum.  Það kostar ekkert að koma til okkar, það má koma eins oft og ungmennið telur sig þurfa og biðtíminn er yfirleitt bara nokkrir dagar.

Við skilgreinum ekki með neinum hætti af hverju ungmennu koma til okkar, ekki þarf tilvísanir, greiningar eða neinn skilgreindan vanda.  Ef þú sem ung manneskja hefur þörf fyrir að ræða eitthvað þá getur þú hringt, sent skilaboð eða skráð þig í þjónustu á heimasíðu okkar bergid.is.

Okkar megin nálgun er hlustun. Við hlustum á ungmenni og mætum þeim á þeirra stað á þeirra forsendum.  Það hefur verið okkar stærsti lærdómur síðustu 5 mánuði, gildi þess að setjast í sig, bregðast ekki við, reyna ekki að leysa málin.  Einfaldlega hlusta og taka inn og gefa ungmennum pláss í sínum tilfinningum.  Síðan getum við í rólegheitum greint með þeim vanda, kannski hjálpað þeim að finna sín bjargráð, jafnvel ef þau vilja hjálpað þeim að finna frekari hjálp sem aðrir bjóða s.s. geð- eða fíknimeðferðir. 

Í síðustu viku náðum við þeim áfanga að taka á móti ungmenni númer 100 í þjónustu til okkar eftir 5 mánaða starf.  Þessi ungmenni eru eins ólík og þau eru mörg.  Flest eru í skóla eða vinnu, í íþróttum eða tómstundum.  Þau eru mörg kvíðin, streitt og þreytt.  Stór hópur sem til okkar kemur hefur veikt bakland til dæmis koma 42% okkar ungmenna af heimilum þar sem eru veikindi s.s. fíkn eða geðsjúkdómar hjá foreldrum eða systkinum. Þau eru að standa sig vel, láta allt ganga upp en upplifa  vanlíðan og streitu. Oft átta þau sig ekki á áhrifum þess að koma úr slíku umhverfi. Við gefum þeim rödd og reynum að efla þau í sínum styrkleikum. Við getum líka hjálpað með því að virkja umhverfi þeirra s.s. barnavernd, heilbigðisþjónustu eða félagsþjónustu.  Önnur þjónusta útilokar ekki frekari þjónustu Bergsins og kjósa þau sem hafa verið vísað áfram yfirleitt að halda áfram í þjónustu Bergsins. Við erum hlutlaust svæði, ekki skólinn, heilsugæslan eða félagsþjónustan. Við erum ekki staður sem setur skilyrði eða tengjast öðrum þáttum í þeirra lífi.

Við erum að átta okkur betur og betur á gildi þess að hafa slíkan stað fyrir ungmenni á Íslandi.

Bergið hefur fengið mikinn stuðning og meðbyr frá samfélaginu öllu og fyrir það þökkum við.  Á þessu ári höldum við áfram að mæta ungmennum á þeirra forsendum en einnig munum við styrkja og efla okkar þjónustu við ungt fólk á Íslandi. 

Ungmennin okkar eru svo ótrúlega flott og fær, þau eru að standa sig í skólum, í listum, í vinnu og leggja svo mikið af mörkum til samfélagsins okkar alls.  Þau eru framtíðin okkar og eiga skilið að við hlustum á þau – í alvöru.

 




Skoðun

Sjá meira


×