Innlent

Tóku þriðja lægsta tilboði

Vegagerðin hefur hafnað tveimur lægstu tilboðunum sem bárust í Suðurstrandarveg og gengið til samninga við verktaka sem átti þriðja lægsta boð. Óvenju lág tilboð bárust í fyrsta áfanga Suðurstrandarvegar milli Grindavíkur og Þorlákshafnar sem voru opnuð hjá Vegagerðinni í síðasta mánuði. Lægsta boð hljóðaði upp á 35 milljónir króna sem var aðeins 24 prósent af 150 milljóna króna kostnaðaráætlun. Í ljós kom að villa var í því tilboði og var það dregið til baka, að sögn Jóns Rögnvaldssonar vegamálastjóra. Þá hafnaði Vegagerðin næstlægsta boði á þeirri forsendu að verktakinn stóðst ekki útboðsskilmála um reynslu af stærri verkum. Ákvað Vegagerðin því að semja við Háfell, sem átti þriðja lægsta boð upp á 98 milljónir króna en það var 65 prósent af kostnaðaráætlun, þannig að ríkið nær engu að síður hagstæðum samningum. Háfell breikkaði meðal annars Reykjanesbrautina og býst vegamálastjóri við að framkvæmdir hefjist fljótlega við Suðurstrandarveg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×