Innlent

Semja við forstjóra OR um laun

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Bjarni Bjarnason hækkaði síðast í launum sem forstjóri Orkuveitunnar fyrir tæpu ári. Mánaðarlaunin voru þá 2,4 milljónir króna.
Bjarni Bjarnason hækkaði síðast í launum sem forstjóri Orkuveitunnar fyrir tæpu ári. Mánaðarlaunin voru þá 2,4 milljónir króna. Fréttablaðið/Anton
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur frestaði á síðasta fundi sínum  að afgreiða tillögu um að gefa Haraldi Flosa Tryggvasyni stjórnarformanni umboð til að "endurskoða og endursemja" um laun Bjarna Bjarnasonar, forstjóra fyrirtækisins.

Fram kemur í fundargerð stjórnar OR að lagt sé til semja við Bjarna "innan ramma tillagna starfskjaranefndar OR". Fréttablaðið óskaði eftir því við fyrirtækið að fá afrit af þessum tillögum en var synjað.

"Í minnisblaðinu, sem er vinnuskjal á þessu stigi, er að finna tillögur sem enn hafa ekki verið samþykktar. Að auki er þar er að finna atriði sem líta verður á sem trúnaðarmál vegna hagsmuna einstaklingsins sem um ræðir," segir í svari frá Orkuveitunni.

Þegar fyrir liggur samþykkt á heildarkjörum forstjórans verði upplýst um hver þau verða í samræmi við þá grein upplýsingalaga sem kveður á um rétt almennings til vitneskju um laun æðstu stjórnenda.

Í lok febrúar í fyrra sagði Fréttablaðið frá því að laun forstjóra Orkuveitunnar voru hækkuð í 2,4 milljónir króna. Haft var eftir Haraldi Flosa stjórnarformanni að þeirri stefnu væru fylgt að laun stjórnenda OR stæðust samanburð við sambærileg störf þótt kjörin ættu ekki að vera „leiðandi" á markaðnum.

ATH:Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar stóð að stjórn Orkuveitunnar hefði samþykkt umboð til handa stjórnaformanni að endursemja um laun forstjóra fyrirtækisins. Hið rétta er að stjórn OR frestaði ákvörðun um málið á síðasta fundi sínum og hefur fréttinni verið breytt til samræmis við það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×