Lífið

iPhone boðar byltingu

Steingrímur árnason telur ekki ólíklegt að iPhone komi til með að kosta um 50 þúsund krónur hér á landi þegar hann kemur á markað í árslok.
Steingrímur árnason telur ekki ólíklegt að iPhone komi til með að kosta um 50 þúsund krónur hér á landi þegar hann kemur á markað í árslok. MYND/Anton

Miklar vonir eru bundnar við nýja iPhone-símann frá Apple sem sameinar síma, lófatölvu, mynd- og Mp3-spilara í eitt tæki, sem býr þar að auki yfir þráðlausri internettengingu. Bylting í fjarskiptatækni, segir þróunarstjóri Apple á Íslandi.

Lengi hefur verið beðið eftir tæki sem sameinar síma, tónhlöðu, myndspilara og lófatölvu í eitt og ef marka má Steve Jobs, forstjóra Apple, er framtíðin komin með iPhone. Steingrímur Árnason, þróunarstjóri Apple á Íslandi, segir að það sé ekki orðum aukið. „Þetta er alhliða samskiptatæki eins og úr framtíðarkvikmyndum. Það er fyrst og fremst verið að höfða til þeirra sem nota stóru iPod-ana og símann í fleira en samtöl."

Steingrímur segir að nútímamaðurinn þurfi í síauknum mæli að hafa internettengingu við höndina og farsímar hafi ekki leyst það vel, það sé bæði dýrt og kosti fyrirhöfn. „Nú verður breyting á því. iPhone verður keyrður áfram með stýrikerfinu okkar þannig að þetta er ekki takmarkað apparat. Þá er hann með þráðlausa nettengingu þannig að fólk getur farið á kaffihús og skoðað vísi.is eða kíkt á tölvupóstinn."

Áður hefur verið reynt að þróa tæki sem átti að leysa önnur af hólmi, meðal annars gaf Apple út lófatölvu um árið en hafði ekki erindi sem erfiði. „Það er fyrst núna sem tæknin er orðin raunhæf," segir Steingrímur. „Þetta er ekki tilraunakennt tæki heldur hefur það verið lengi í þróun. Það óvenjulega við það er að það er miklu minna en tæknilegustu símar frá öðrum fyrirtækjum, þeir eru eins og múrsteinar í samanburði. Þetta er vissulega bylting."

iPhone fer á markað í Bandaríkjunum í júní og kostar 500 til 600 dollara þar ytra, það er 36 til 43 þúsund krónur. Síminn verður fáanlegur á Íslandi í árslok en Steingrímur segir erfitt að segja til um verðið að svo stöddu. „En það er ekki ólíklegt að það verði í námunda við 50 þúsund krónur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.