Sport

Gummi Ben og Kjartan Sturlu í Val

Valsmenn sem leika að nýju í Landsbankadeild karla í knattspyrnu næsta sumar hafa fengið gríðarlega öflugan liðsstyrk fyrir komandi tímabil en sóknarmaðurinn Guðmundur Benediktsson og markvörðurinn Kjartan Sturluson skrifuðu í dag undir samninga við Hlíðarendafélagið til tveggja ára. Guðmundur kemur frá KR þar sem hann hefur verið undanfarin 10 ár en með þeim hampaði hann fjórum Íslandsmeistaratitlum. Kjartan lék sem kunnugt með Fylki út sumarið 2003 en lék ekki með neinu liði í sumar vegna náms erlendis. Kjartan er án efa einn besti markvörður landsins með 90 leiki að baki í efstu deild, 8 leiki í Evrópukeppnum og þá á hann að baki leiki með U18 ára landsliðinu og 1 leik með A landsliði Íslands. Valsarar eru hvergi nærri hættir að styrkja hópinn því á heimasíðu Vals segir að fleiri menn séu á leiðinni. Nýr þjálfari Vals er Willum Þór Þórsson sem kom frá KR í haust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×