Hinn gamalreyndi framherji New Jersey Nets, Clifford Robinson, hefur enn og aftur komið sér í vandræði vegna eiturlyfjaneyslu og í dag var hann dæmdur í fimm leikja bann eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Forráðamenn deildarinnar gefa aldrei upp hvaða lyf það eru sem um ræðir þegar leikmenn falla á prófun, en í þessu tilfelli má gera ráð fyrir að um kannabisefni hafi verið að ræða.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Robinson er settur í bann vegna eiturlyfjaneyslu, en ekki er lengra en rúmt ár síðan hann fór í fimm leikja bann fyrir svipaða uppákomu. Robinson hefur spilað í deildinni í 17 ár, eða lengur en nokkur annar leikmaður. Bannið þýðir að hann kemur ekki meira við sögu í einvígi Miami og New Jersey í undanúrslitum Austurdeildarinnar, en ef marka má frammistöðu hans í síðasta leik - verður hans vart mikið saknað það sem eftir lifir af einvíginu.