Körfubolti

Bjarni tekur við Haukum og Ingvar snýr aftur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ingvar Guðjónsson lengst til vinstri, Bjarni Magnússon fyrir miðri mynd og Bragi Magnússon til hægri en Bragi er formaður körfuknattleiksdeildar Hauka.
Ingvar Guðjónsson lengst til vinstri, Bjarni Magnússon fyrir miðri mynd og Bragi Magnússon til hægri en Bragi er formaður körfuknattleiksdeildar Hauka. mynd/haukar

Bjarni Magnússon hefur verið ráðinn þjálfari Hauka í Dominos-deild kvenna en þetta var staðfest í kvöld. Ingvar Guðjónsson, fyrrum þjálfari liðsins, verður Bjarna til aðstoðar en samningar beggja til tveggja ára.

Bjarni var aðstoðarþjálfari liðsins á síðustu leiktíð en í lok febrúar eftir létu Haukarnir Ólöfu Helgu Pálsdóttur fara. Við tók Ari Gunnarsson áður en mótið var blásið af.

Bjarni og Ingvar þekkja vel til á Ásvöllum en báðir hafa þeir þjálfað liðið áður. Bjarni stýrði liðinu frá 2011 til 2014 og varð liðið bikarmeistari árið 2014 og lék til úrslita tímabilin 2011-2012 og 2013-2014.

Ingvar var þjálfari liðsins frá 2015 til 2018 og stýrði liðinu m.a. til Íslandsmeistaratitils vorið 2018. Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem þeir þjálfa saman. Ingvar var aðstoðarþjálfari hjá Bjarna og Bjarni svo aðstoðarþjálfari hjá Ingvari.

Bjarni var aðstoðarþjálfari beggja meistaraflokka hjá Haukunum síðasta vetur en næsta vetur mun hann einbeita sér að stelpunum.

„Ég var á báðum vígstöðvum síðasta vetur en það var ljóst að þegar ég tók að mér aðalþjálfara starf mfl. kvenna þá gat ég ekki verið með karlaliðinu. Ég er mjög stoltur að taka við þessu liði. Ég þekki þær mjög vel og spenntur að hefja undirbúning sem fyrst,“ sagði Bjarni við heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×