Skoðun

Þjóðarsátt II

Sigurður Oddsson skrifar
Ég dáist að reiknimeisturum Samtaka atvinnulífsins (SA), sem geta reiknað upp á 0,1%, hvenær allt fari til fjandans. Sem atvinnurekandi skammaðist ég mín fyrir boð SA upp á 3,5% hækkun launa. Sem launagreiðandi veit ég að gangi kröfur stéttarfélaganna eftir munu mörg fyrirtæki fara á hausinn geti þau ekki velt auknum kostnaði út í verðlagið. Það eykur verðbólguna, sem Seðlabankinn mun reyna að slökkva með því að skvetta stýrivaxtahækkun á verðbólgubálið. Árangurinn verður gengisfelling og kjararýrnun. Já, það er ekki öll vitleysan eins.

Ættu að einbeita sér að þjóðarsátt

Markmiðið hefur alltaf verið að jafna kjörin með meiri hækkun lægstu launa, en alltaf eykst misskiptingin. Seinast tókst að halda %-hækkun í hófi hjá þeim, sem fyrst var samið við. Hinir sem komu á eftir fengu að minnsta kosti sömu %-hækkun og laun hækkuðu þeim mun meir í krónum, sem þau voru hærri fyrir. Þannig fékk milljón króna maðurinn 40.000 kr. hækkun, þegar sá með 250.000 kr. fékk 10.000 kr. Það gerir 360.000 kr. mun á ári. Svo voru aðrir, sem fengu langtum meira. Dæmi um misskiptinguna eru arðgreiðslur og stjórnarlaun hjá HB Granda. Niðurfelling orkuskatts hjá þeim, sem fá raforku á undirverði. Gjafakvóti til útvaldra. Svo eru menn hissa á að Píratar bæti við sig fylgi. Hvernig getur SA eftir allt þetta, sem á undan er gengið, ætlast til að viðsemjendur sínir kynni umbjóðendum sínum 3,5-4% launahækkun og hvernig geta stéttarfélögin ætlast til að SA samþykki 30-50% hækkun launa? Í stað þess að karpa endalaust á þessum nótum væri aðilum vinnumarkaðarins nær að einbeita sér að þjóðarsátt um:

1) Hækkun persónuafsláttar á lægstu laun. Þannig kæmi óbein hækkun til þeirra verst settu án þess að ganga upp allan launastigann. Eftir seinustu kjarasamninga sagði einn verklýðsforinginn að ríkisstjórnin hefði ekki viljað hækka skattleysismörkin. Nú hefur ríkisstjórnin boðist til að liðka fyrir krónutöluhækkun en ekki %-hækkun launa. Liggur ekki beint við að láta Sigmund standa við það með hækkun persónuafsláttar í 200.000 kr. á laun lægri en 300.000 kr. fyrir heilsdags vinnu?

2) Fella niður tryggingargjaldið. Atvinnurekendur gætu tekið á sig meiri launahækkun losnuðu þeir við tryggingargjaldið, sem er tímaskekkja og ætti að vera búið að fella niður.

3) Lækkun stýrivaxta. Það væru miklar kjarabætur fyrir jafnt launþega sem atvinnurekendur lækkuðu stýrivextir úr 6% í 3%. Eftir lækkunina væru þeir samt 6x hærri en hjá Evrópubankanum.

Á Íslandi í dag er mestur gróði hjá bönkum og fjármagnsstofnunum, sem lána fé á okurvöxtum. Arðurinn er þeim mun meiri, sem stýrivextir eru hærri. Þannig hefur það verið alveg frá því AGS skikkaði stjórnvöld til að hækka stýrivexti úr 12% í 18%. (Önnur lönd með miklu lægri stýrivexti lækkuðu þá til að koma hjólum atvinnulífsins á snúning). Alla tíð síðan hafa snjóhengju/jöklabréfabraskarar fengið háa vexti í gjaldeyri, sem hefur runnið úr landi þrátt fyrir höftin. Allir nema bankarnir tóku þátt í þjóðarsátt I á seinustu öld. Sagt var að þeir hefðu orðið fyrir svo miklum útlánatöpum, að þeir yrðu að halda áfram sömu okurvaxtastarfseminni og fyrir þjóðarsátt. Nú græða þeir sem aldrei fyrr og kominn tími til að aðilar vinnumarkaðarins sýni hvað í þeim býr og taki á þessum ósóma.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×