Handbolti

Bjarki Már þriðji íslenski markakóngurinn í Þýskalandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már hefur nú orðið markakóngur í þremur deildum á ferlinum.
Bjarki Már hefur nú orðið markakóngur í þremur deildum á ferlinum. vísir/getty

Bjarki Már Elísson var markahæstur í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta sem var flautuð af í dag vegna kórónuveirufaraldursins.

Bjarki skoraði 216 mörk í 27 leikjum fyrir Lemgo, eða átta mörk að meðaltali í leik. Hann skoraði fjórtán mörkum meira en Hans Lindberg, íslenski Daninn hjá Füchse Berlin. Þeir Bjarki voru langmarkahæstir í þýsku deildinni.

Bjarki er þriðji Íslendingurinn sem verður markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar. Sigurður Sveinsson varð markakóngur tímabilið 1984-85 þegar hann skoraði 191 mörk fyrir Lemgo. 

Guðjón Valur Sigurðsson varð svo markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar tímabilið 2005-06. Hann skoraði þá 264 mörk fyrir Gummersbach.

Bjarki gekk í raðir Lemgo frá Füchse Berlin fyrir þetta tímabil. Lemgo endaði í 10. sæti deildarinnar en liðið var á góðri siglingu þegar keppni var frestað.

Þetta er þriðji markakóngstitill Bjarka. Hann var markakóngur efstu deildar á Íslandi með HK 2012-13 og markahæstur í þýsku B-deildinni 2014-15, þá leikmaður Eisenach.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×