Handbolti

Ekkert skrýtið að finna leikmenn fyrir eitt lið en þjálfa annað

Sindri Sverrisson skrifar

Gunnar Magnússon er að verða búinn að fullmóta sinn fyrsta leikmannahóp sem þjálfari Aftureldingar í handbolta karla þrátt fyrir að síðasta tímabili hans sem þjálfari Hauka sé ekki formlega lokið.

„Auðvitað erum við búnir að vera í því síðustu vikur og mánuði að undirbúa næsta tímabil. Það er bara eins og gengur og gerist. Liðin fara í það snemma. Það var fyrirsjáanlegt þegar ég skrifaði undir hjá Aftureldingu að það yrðu miklar breytingar. Það voru leikmenn að fara erlendis í nám og annað, og aðrir með lausa samninga, svo þarna var tækifæri fyrir mig líka til að fá leikmenn sem ég vildi sjálfur fá. Auðvitað er ég ánægður með þær breytingar sem við höfum verið að gera upp á síðkastið,“ sagði Gunnar við Henry Birgi Gunnarsson í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í kvöld.

Aðspurður hvort ekki væri skrýtið að þjálfa eitt lið og vera á meðan að finna leikmenn í annað lið sagði Gunnar svo ekki vera. Hann er enn þjálfari Hauka en Aron Kristjánsson tekur við því starfi í sumar:

„Nei, það er ekki skrýtið. Við Aron erum góðir vinir og sitjum hlið við hlið á skrifstofunni á Ásvöllum. Hann að semja við leikmenn fyrir Hauka og ég í Aftureldingu, og ég að þjálfa Hauka. Svona er bara heimurinn. Ef maður horfir á hvernig þetta er erlendis þá er það bara svona. Mér fannst þetta því ekkert skrýtið. Maður þarf að undirbúa næsta tímabil tímanlega, svo að þetta háði mér ekki mikið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×