Handbolti

Afturelding fær þrjá leikmenn frá ÍR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveinn Andri leikur með Aftureldingu á næsta tímabili.
Sveinn Andri leikur með Aftureldingu á næsta tímabili. vísir/bára

Karlalið Aftureldingar í handbolta fær þrjá leikmenn frá ÍR í sumar. Samkvæmt heimildum Vísis eru það Bergvin Þór Gíslason, Sveinn Andri Sveinsson og Þrándur Gíslason Roth.

Samningar þremenninganna við ÍR renna út í sumar. ÍR-ingar eiga í fjárhagserfiðleikum og hafa ákveðið að draga saman seglin.

Bergvin, sem er 28 ára skytta, hefur leikið með ÍR undanfarin ár en hann kom til liðsins frá Akureyri. Í vetur hefur hann skorað 60 mörk í 18 leikjum í Olís-deild karla. Þá er hann í stóru hlutverki í vörn Breiðhyltinga.

Sveinn Andri, sem er 21 árs, er uppalinn ÍR-ingur. Leikstjórnandinn hefur skorað 60 mörk í 18 deildarleikjum í vetur.

Þrándur, sem er 31 árs línumaður, lék áður með Aftureldingu. Hann hefur skorað 50 mörk í 19 deildarleikjum á þessu tímabili.

Gunnar Magnússon tekur við Aftureldingu af Einari Andra Einarssyni eftir tímabilið.

Afturelding er í 3. sæti Olís-deildarinnar en ÍR í því sjötta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×