Skoðun

Gerbreyttar aðstæður í framhaldsskólum

Guðjón H. Hauksson skrifar

Alla þessa viku hafa kennarar lagt nótt við dag við að útfæra kennslu sína með það fyrir augum að nám nemenda raskist eins lítið og hægt er vegna þess viðbúnaðar sem COVID-19 kallar á. Ekkert okkar hefur upplifað svona ástand áður. Ég hef fylgst með stétt framhaldsskólakennara mæta þessum áskorunum af gríðarlegum dugnaði og sveigjanleika. Aðstæður þeirra eru afar ólíkar og margir hafa þurft að gerbreyta kennslu og fyrirkomulagi samskipta, endurgera námsefni og verkefni og taka upp nýjar aðferðir við námsmat. Vinnan hefur í mörgum tilfellum staðið langt fram á kvöld og hafist snemma að morgni.

Það hefur verið mjög uppörvandi að fylgjast með kennurum á hinum ýmsu stöðum internetsins þar sem fagmennskan, vinnugleðin og atorkan hefur ríkt, allir eru að læra af öllum með það að markmiði að halda eins vel utan um nemendur og aðstæður leyfa. Fjölmargir foreldrar hafa séð ástæðu til að þakka kennurum sérstaklega fyrir að halda vel utan um nemendurna á þessum viðsjárverðu tímum. Það er ekki laust við að maður fyllist auðmýkt og stolti yfir því sem kennarar afreka þessa dagana.

Eins og aðrir fylltist ég miklum vonbrigðum þegar ég horfði á Kastljósið í gær þar sem ítrekað var látið að því liggja af hálfu þáttarstjórnandans að engin kennsla færi fram í framhaldsskólum og jafnvel ýjað að því að ekki ætti að borga verklausu fólki laun. Að vísu skal það talið Ríkissjónvarpinu til tekna að hafa beðist afsökunar á þeim ummælum sem þar féllu. Þau bera vott um vanþekkingu á því mikla starfi sem kennarar, stjórnendur og náms- og starfsráðgjafar vinna nú um stundir.

Félag framhaldsskólakennara vill koma því skýrt á framfæri að allt starfsfólk í skólum landsins leggur nú ofurkapp á að halda uppi menntun í landinu eins og framast er unnt. Allt tal um að fólk sé verklaust og vinni ekki fyrir launum sínum er forkastanlegt hvernig sem á það er litið. Nú þarf samfélagið að passa upp sitt skólafólk, bæði það sem kennir og það sem lærir, því fram undan er áframhaldandi álag og þetta var aðeins fyrsta vikan af mörgum.

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×