Skoðun

ADHD og nám á tímum kórónu­veirunnar

Hrannar Björn Arnarsson skrifar

ADHD samtökin beina til stjórnenda í grunn- og ekki síður framhaldsskólum að nemendur með ADHD og skyldar raskanir eru sérstaklega viðkvæmir þegar venjulegt skólastarf raskast.

Vitað er að fólk með ADHD á mun erfiðara en aðrir með að skipuleggja sig og það gildir ekki síst um nemendur á öllum skólastigum. Nemendur með ADHD eiga jafnframt erfiðara með að vinna með langa texta og eru þar afar háðir aðstoð kennara. Einnig er þekkt að fólk með ADHD hefur ekki sama tímaskyn og aðrir. Þessi atriði og fleiri einkenni ADHD geta verið sérstaklega íþyngjandi þegar kemur að verkefnavinnu og þá ekki síður skilum á verkefnum.

Mikilvægt er því að sérhver nemandi fái persónulegan stuðning og hvatningu og að tillit sé tekið til þarfa hvers og eins við úthlutun verkefna og verkefnaskil. Nemendur með ADHD þurfa á að halda að samskipti séu tíð og þeir njóti eftirfylgni og stuðnings kennara. Því er nauðsynlegt að kröfur sem gerðar eru til nemenda með ADHD séu mótaðar í góðu samstarfi við nemandann sjálfan og forráðamenn.

Auk þess sem hér er nefnt eru nemendur með ADHD í aukinni áhættu á að flosna upp úr námi við aðstæður á borð við þær sem nú ríkja. Jafnvel þó ætlunin sé að halda áfram námi, má reikna með að mörgum innan okkar hóps reynist erfitt að taka aftur upp þráðinn þegar eðlilegt skólastarf kemst aftur á.

Það er líklegt að hegðun margra barna og unglinga versni nú, þau verði pirruð og sýni meiri mótþróa. Þetta eru dæmigerð kvíðaviðbrögð. Allt samfélagið er kvíðið og bjargráð okkar til að takast á við kvíða eru mjög mismunandi. Mótþrói og pirringur eru þekkt kvíðaviðbrögð og algeng hjá ADHD börnum. Sýnum skilning og aukum stuðning og uppörvun og höldum aftur af eigin pirringi.

ADHD samtökin vita að víða er verið að vinna á þennan hátt með nemendum og þakka þeim kennurum og skjólastjórnendum sem þannig starfa. Samtökin lýsa sig reiðubúin til ráðgjafar og samstarfs, bæði við skólastjórnendur, nemendur og forráðamenn og benda á ítarlegar upplýsingar á vef samtakanna www.adhd.is

Á meðan samkomubann stjórnvalda stendur, munu ADHD samtökin standa fyrir opnum fræðslufundum á Facebook síðu samtakanna. Sá fyrsti verður miðvikudaginn 25. mars kl. 19:30 um nám og ADHD á tímum kórónuveirunnar – sjá nánar á meðfylgjandi slóð.

Höfundur er framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×