Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Þór Þ. 84-70 | Stjarnan með fjögurra stiga forskot

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ægir Þór átti flottan leik að venju fyrir Stjörnuna.
Ægir Þór átti flottan leik að venju fyrir Stjörnuna. vísir/daníel

Eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem gestirnir leiddu með einu stigi, 35-34, þá var það topplið Stjörnunnar sem fór með sigur af hólmi í Garðabænum í kvöld. Lokatölur 84-70 og stigin því Stjörnumanna í kvöld.

Fyrir leikinn voru Stjörnumenn á toppi deildarinnar með 18 stig eftir að hafa unnið níu af 11 leikjum sínum til þessa á Íslandsmótinu. Þór Þorlákshöfn voru í 8. sæti sem er síðasta sæti sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni en liðið hafði unnið fimm og tapað sex leikjum fram að leik kvöldsins í Mathús Garðabæjar höllinni í Garðabæ.

Leikurinn byrjaði rólega og voru einu tvö stig fyrstu tveggja mínútna leiksins frá Urald King, hans fyrstu fyrir Stjörnuna, af vítalínunni. Það tók Þórsara samtals tvær mínútur og 56 sekúndur að skora sín fyrstu stig í kvöld en heimamenn svöruðu um hæl og voru 8-2 yfir þegar fjórar mínútur voru liðnar.

Gestirnir frá Þorlákshöfn fundu svo vopn sín þegar leið á leikhlutann og Jerome Fink fór að finna sig aðeins betur í sóknarleiknum. Tókst þeim að jafna metin á 6. mínútu eftir að Jerome Fink setti laglega körfu. Heimamenn gáfu í eftir það og voru á endanum fjórum stigum yfir þegar 1. leikhluta lauk, staðan þá 18-14.

Stjarnan byrjaði 2. leikhluta af krafti og virtist ætla að stinga af um miðbik leikhlutans þegar Arnþór Freyr Guðmundsson kom þeim átta stigum yfir, 30-22, með rosalegu þriggja stiga skoti. Gestirnir voru þó ekki á því að leggja árar í bát og tókst að halda í við öflugt lið heimamanna. Gott betur en það raunar. Síðasta mínúta fyrri hálfleiks var rosaleg þar sem gestirnir komust óvænt þegar 47 sekúndur voru til hálfleiks. Emil Karel Einarsson átti þá þriggja stiga skot söng í netinu og staðan 33-32 Þórsurum í vil.

Stjarnan brunaði í sókn og Ægir Þór skoraði, Stjarnan yfir 34-33 og 37 sekúndur eftir. Halldór Garðar Hermannsson kom gestunum svo aftur yfir með góðu sniðskoti áður en Stjarnan fór í það sem átti að vera lokasókn hálfleiksins en það var dæmt sóp og gestirnir því yfir með eins stigs mun þegar flautað var til hálfleiks, 35-34. 

Stjarnan byrjaði síðari hálfleik vel og voru ekki lengi að komast yfir. Arnþór Freyr setti rosalegan þrist til að koma heimamönnum 10 stigum yfir þegar 3. leikhluti var rúmlega hálfnaður og var ekki aftur snúið eftir það. Hann gerði svo gott betur og bætti við öðrum þrist, kom heimamönnum þar með 13 stigum yfir, 52-39.

Var það forysta sem Stjörnumenn héldu út 3. leikhluta en sóknarleikur gestanna var einkar stirðbusalegur á köflum og Jerome Fink lét lítið fyrir sér fara á þessum tímapunkti. Nick Tomsick gerði sér svo lítið fyrir og negldi í tvo þrista lengst utan af velli undir lok leikhlutans, sá síðari bókstaflega er flautið gall. Stjarnan því komin upp í 16 stiga forystu fyrir fjórða og síðasta leikhluta leiksins, staðan 60-44.

Leikurinn var í raun búinn þarna en gestirnir náðu aldrei að ógna forystu heimamanna í 4. leikhluta. Á endanum virtist sem Þórsarar yrðu einfaldlega bensínlausir og unnu Stjörnumenn öruggan 14 stiga sigur en þeir leiddu á tímabili með 22 stigum. Lokatölur í Mathús Garðabæjar höllinni 84-70 Stjörnunni í vil sem heldur þar með toppsætinu.

Af hverju vann Stjarnan?

Af því þeir eru betur mannaðir heldur en Þór Þorlákshöfn. Eflaust eru þeir best mannaða lið deildarinnar. Það hjálpaði þeim að það slökknaði algjörlega á sóknarleik gestanna í síðari hálfleik og þá voru heimamenn að hitta vel úr þriggja stiga skotum þegar á þurfti. 

Hverjir stóðu upp úr?

Erfitt að taka einhvern sérstakan hjá Stjörnunni en alls skoruðu fimm leikmenn 10 stig eða meira. Urald King var með 15 stig og 10 fráköst. Nikolas Tomsick gerði einnig 15 stig, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar. Arnþór Freyr setti 12 stig sem og Tómas Þórður Hilmarsson.

Hjá Þór var Halldór Garðar með 18 stig og fimm stoðsendingar. Þá var Jerome Fink ágætur á köflum en virkaði þó ekki alveg í sínu besta standi. hann gerði 18 stig og tók níu fráköst.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur gestanna í 3. leikhluta en þar náðu heimamenn forystunni sem þeir héldu til leiksloka.

Hvað gerist næst?

Eftir fjóra daga eða þann 9. janúar þá mætir Valur til Þorlákshafnar og spilar gegn heimamönnum. Á sama tíma, klukkan 19:15, fara Garðbæingar í Breiðholtið og mæta ÍR.

Vísir/Vilhelm

Arnar eftir leik: Glaður að ná í sigur

„Bara glaður að ná í sigur,“ sagði Arnar sposkur að leikslokum. Aðspurður hvað hefði átt sér stað í hálfleik þá var Arnar einfaldlega ekki viss hver ræðan hefði verið en það var allt annað að sjá Stjörnuna í síðari hálfleik í kvöld. „Það var ekkert sérstakt svo sem, ég eiginlega bara man það ekki. Vorum að frákasta illa, töluðum um það og að hreyfa boltann betur þar sem sóknarleikurinn var mjög stirður í dag.“

„Það er fullkomlega eðlilegt að við séum stirðir, það koma tveir nýjir leikmenn inn og holningin breytist öll við það. Þessi hópur er búinn að vera saman síðan 28. desember þannig við vorum stirðir en menn stigu upp og við erum sáttir með stigin en ég á eftir að skoða leikinn, það er margt sem við getum gert betur.“

Arnþór Freyr: Eigum nóg af góðum skotmönnum

„Mér líður vel með hann og flott að klára leikinn með sigri þó endirinn hafi ekki verið skemmtilegur,“ sagði Arnþór Freyr um sigur kvöldsins.

„Við vorum ryðgaðir í fyrri hálfleik en fundum ryðmann í seinni, settum stór skot og náðum góðum stoppum,“ sagði Arnþór um hvað hefði breyst milli hálfleikja. 

„Við eigum nóg af góðum skotmönnum,“ sagði Arnþór að lokum um stóru þriggja stiga körfurnar sem bæði hann og Nick Tomsick settu í kvöld.

Friðrik Ingi: Þór Þorlákshöfn er ekki þekkt fyrir það að leggjast niður og láta valta yfir sig

„Aðeins blönduð, ég var ánægður með kraftinn og viljann að mestu leyti í leiknum. Varnarleikurinn hálfum velli var mjög góður í fyrri hálfleik en það sem skilur á milli eru fráköstin og hraðaupphlaupskörfur Stjörnunnar,“ sagði Friðrik að leik loknum.

„Mér fannst ungu leikmennirnir sem komu inn af bekknum tilbúnir að gera sitt besta og láta finna fyrir sér, sem þeir gerðu. Það er kannski ekki okkar stíll, höfum frekar verið að vandræðast með það að í vetur að þegar við höfum verið að leiða í leikjum höfum við átt í erfiðleikum,“ sagði Friðrik um baráttuhug sinna manna sem lögðu ekki árar í bát þó þeir væru lentu 20 stigum undir í fjórða leikhluta.

„Þór Þorlákshöfn er ekki þekkt fyrir það að leggjast niður og láta valta yfir sig. Það er töggur í þessum strákum og ég er ánægður með að við skyldum reyna alveg fram í lokin. Munurinn var því miður orðinn aðeins of mikill,“ sagði hann að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira