Handbolti

Anna fékk dýrmæt ár með mömmu og sýtir ekki lengur hvernig fór með atvinnumennskuna

Sindri Sverrisson skrifar
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir hefur ákveðið að láta staðar numið en gæti snúið aftur sem aðstoðarþjálfari.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir hefur ákveðið að láta staðar numið en gæti snúið aftur sem aðstoðarþjálfari. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir segir að þó að margir hafi sagt að hún sé erfiður mótherji þá telji hún að hún sé ekki heldur neitt auðveldur samherji. Hún lítur ánægð til baka á glæstan feril eftir að hafa sett handboltaskóna á hilluna.

„Það er svolítið kjánalegt að segja það en þetta blundaði ansi lengi í manni. En þegar allt kom til alls þá er þetta komið gott. Ég er að verða 35 ára í næstu viku, hnéð á mér er ónýtt, og þetta er bara góður tími,“ sagði Anna í Sportinu í dag um þá ákvörðun sína að hætta endanlega. Hún vann þrefalt með Val fyrir ári síðan en lék ekki í vetur og sagði ekkert hæft í getgátum um að hún hefði tekið þátt í úrslitakeppninni, ef hún hefði ekki verið slegin af vegna kórónuveirunnar.

Anna vann 19 af 30 titlum sem í boði voru á síðasta áratug og stígur því niður af sviðinu sem sannkölluð handboltadrottning:

„Já, ég var nú ekki alveg búin að skoða þetta sjálf. Þetta rennur svolítið saman í eitt. Maður er bara alltaf að reyna að vinna. Ég held að flestir íþróttamenn séu alltaf að stefna að því og ég hef verið það heppin að vera alltaf í frábærum liðum og með frábærum leikmönnum, og frábærum þjálfurum,“ sagði Anna. En er eitthvað sem hún sér eftir?

„Ég er náttúrulega mjög ánægð. Kannski hefði maður viljað spila lengur úti. Ná einhverjum atvinnumannsferli. Ég var alltaf mjög svekkt yfir því. En svo var mamma mín bráðkvödd fyrir þremur árum og það setti hlutina í samhengi. Ég áttaði mig á því hvað ég var heppin að hafa verið hérna heima, njóta þess að spila handbolta og vera með fjölskylduna mína. Þetta er því ekkert til að sjá eftir.“

Klippa: Sportið í dag - Anna Úrsúla hætt

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×