Viðskipti innlent

Valið sett í hendur viðskiptavinarins í Nammilandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Nammiland í Hagkaup, Skeifunni.
Nammiland í Hagkaup, Skeifunni. Vísir/Sunna

Viðskiptavinir Hagkaups hafa veitt því eftirtekt að nammibarirnir hafa verið opnaðir aftur. Framkvæmdastjóri Hagkaups segir í samtali við Vísi að það hafi verið ákvörðun verslunarinnar á sínum tíma í haust að loka Nammilandinu vegna ástandsins í samfélaginu.

„Þetta var okkar ákvörðun á sínum tíma og þá helst vegna fjöldatakmarkana í verslunum. Vegna þeirra reglna var ekki hægt að hafa fjölda á einum stað. Þess vegna lokuðum við Nammilandinu,“ segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.

Nú fyrir jólin tóku í gildi reglur um sóttvarnaráðstafanir í verslunum sem kveða meðal annars á um að fimmtán ára og yngri teljast ekki með því þeim hámarksfjölda sem má vera inni í verslunum hverju sinni. Í kjölfarið ákvað Hagkaup að opna Nammilandið á ný. Var þá stuðst við svokallaða „rólega opnun“ þar sem opnunin var ekki auglýst og valið sett í hendurnar á viðskiptavininum.

Svona leit Nammilandið út í Hagkaup á meðan það var lokað.Vísir/Egill

Grímuskylda er í öllum verslunum Hagkaups og er þar að auki skylda um að nota hanska í Nammilandinu.

Margir héldu að það hefði verið skipun frá sóttvarnayfirvöldum að allir nammibarir, þar sem mikið er um sameiginlega snertifleti, hefðu verið bannaðir af sóttvarnayfirvöldum, en svo er ekki að sögn Sigurðar. Um er að ræða ákvörðun hverrar verslunar fyrir sig, bæði nú í haust og síðastliðið vor þegar samkomutakmarkanir voru sem harðastar.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.