Handbolti

Viktor Gísli og fé­lagar enn á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli og félagar í GOG héldu toppsætinu.
Viktor Gísli og félagar í GOG héldu toppsætinu. Vísir/Getty

GOG heldur toppsæti dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta eftir nauman tveggja marka sigur á Ringsted, 33-31. Á sama tíma vann Álaborg öruggan sex marka sigur á Sveini Jóhannssyni og félögum í SönderjyskE.

Það stefnir svo sannarlega í harða baráttu um danska meistaratitilinn á þessari leiktíð. GOG og Álaborg gefa ekkert eftir en landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli og samherjar í GOG voru næstum búnir að misstíga sig gegn Ringsted sem situr í næstneðsta sæti deildarinnar í kvöld.

Fór það svo að GOG náði að tryggja sér sigur undir lokin en þeir komust tveimur mörkum yfir þegar rétt tæp hálf mínúta lifði leiks. Lokatölur 33-31og toppsætið enn þeirra. Viktor Gísli varði alls sjö skot í leiknum.

Sveinn Jóhannsson átti fínan leik í liði SönderjyskE er liðið tapaði gegn meisturunum í Álaborg með sex marka mun, 37-31. Sveinn skoraði fjögur mörk og gaf eina stoðsendingu. Arnór Atlason er sem fyrr aðstoðarþjálfari dönsku meistaranna.

GOG er með 30 stig á toppi deildarinnar, einu stigi meira en Álaborg. Toppliðið á þó enn tvo leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×