Körfubolti

Miami Heat hætt að eltast við Harden

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 James Harden hefur verið stigakóngur NBA-deildarinnar undanfarin þrjú tímabil en hann skoraði 34,3 stig í leik á síðasta tímabili.
 James Harden hefur verið stigakóngur NBA-deildarinnar undanfarin þrjú tímabil en hann skoraði 34,3 stig í leik á síðasta tímabili. Getty/Michael Reaves

Það hefur fækkað um eitt lið í hópi liðanna sem koma til greina sem framtíðargriðarstaður fyrir NBA stórstjörnuna James Harden.

Framtíð körfuboltamannsins James Harden er í uppnámi eftir að hann gerði það opinbert að hann vilji komast í burtu frá Houston Rockets.

Harden tíminn í Houston virðist vera á enda. Hann safnaði að sér einstaklingsverðlaunum á síðustu árum en Rockets liðið náði ekki að komast bara einu sinni í úrslit Vesturdeildarinnar og aldrei í lokaúrslitin um NBA titilinn.

NBA deildin hefst aftur í kvöld en það er hætt við því að hugsanleg skipti á Harden muni drottna yfir öllu hjá Rockets næstu vikur og mánuði takist félaginu ekki að finna lið sem vill gefa þeim nógu mikið fyrir hann.

Harden átti að hafa sagt forráðamönnum Houston Rockets, til hvaða liða hann vildi fara, ef tækist að semja um leikmannaskipti. Eitt af þessum liðum átti að vera lið Miami Heat sem komast alla leið í lokaúrslitin á síðustu leiktíð.

Miami Heat og Houston Rockets voru eitthvað búin að ræða saman um möguleika á slíkum skiptum en í Miami liðinu eru ungir og spennandi leikmenn eins og Tyler Herro, Duncan Robinson og Kendrick Nunn.

Miami Heat hafði aftur á móti ekki mikið að bjóða þegar kemur að framtíðarvalréttum í nýliðavalinu en það er eitthvað sem Houston Rockets sækist eftir til að geta sett saman nýtt lið í framtíðinni.

Nýjustu heimildir ESPN herma hins vegar að Miami Heat hafi slitið þessum viðræðum endanlega og að félagið hafi ekki lengur áhuga á því að eltast við James Harden.

Houston menn hafa einnig rætt við Brooklyn Nets, Philadelphia 76ers og Denver Nuggets um hugsanleg skipti. Harden sjálfur hefur neitað að ræða stöðu sína og framtíðina í síðustu viðtölum sínum við fjölmiðlamenn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×