Körfubolti

Holdar­far Hard­en til um­ræðu er hann sneri aftur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harden spilaði 21 mínútu í æfingaleik gegn San Antonio Spurs í fyrranótt.
Harden spilaði 21 mínútu í æfingaleik gegn San Antonio Spurs í fyrranótt. Houston Chronicle

James Harden, leikmaður Houston Rockets í NBA-deildinni, sneri aftur er liðið lagði San Antonio Spurs í æfingaleik í fyrranótt. Hann virkaði ekki beint í sínu besta formi.

Hinn 31 árs gamli Harden hefur án alls efa verið einn besti leikmaður NBA-deildarinnar undanfarin ár. Hann var valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar árið 2018 og hefur verið stigahæsti leikmaður deildarinnar þrjú ár í röð, 2018-2020. Það er ef frá er talin úrslitakeppnin.

Harden virðist hins vegar hafa tekið aðeins of vel á því í fríinu sínu nú eftir að Los Angeles Lakers sló þá út á leið sinni að meistaratitlinum. Harden mætti seint til æfinga og virtist töluvert frá sínu besta er Rockets mættu Spurs í fyrranótt. Var holdarfar Harden til umræðu hjá þeim sem fjölluðu um leikinn vestanhafs.

Þá birti ESPN grein um að Harden fengi í raun allt sem hann vildi hjá Houston. Hann hefur verið hjá félaginu síðan 2012. Félagið hefur verið með fjóra þjálfara á þeim tíma og samkvæmt fyrrum starfsmanni félagsins mætti segja að stefna þess sé í rauninni „hvað sem James vill.“

Hann fær auka frídaga, hann alltaf frí eftir Stjörnuleikinn og öllu sem honum fylgir. Samkvæmt heimildum ESPN þá hefur áhrif á hverjir koma og fara sem og hver þjálfar. Hann á að hafa ýtt undir að Kevin McHale, fyrrverandi þjálfari liðsins, hafi verið látinn taka poka sinn.

Þá mun Harden hafa séð til þess að bæði Dwight Howard og Chris Paul var skipt út fyrir aðra leikmenn.

Svo virðist sem Houston sé alveg sama svo lengi sem Harden stendur sig inn á vellinum. Hann hefur hins vegar aldrei farið lengra en í úrslit Vesturdeildarinnar með liðið á sínum átta árum í Houston.

Harden spilaði 21 mínútu í 14 stiga sigri Rockets á Spurs, lokatölur 112-98. Hann skoraði 12 stig, tók þrjú fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Hann þarf að gera mikið mun betur ef Houston ætla sér aftur í úrslit Vesturdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×