Handbolti

Myndir af Rússunum vekja at­hygli: „Halda á­fram að taka heimsku­legar á­kvarðanir“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rússneska liðið fagnar sigrinum á Svíum í gærkvöldi.
Rússneska liðið fagnar sigrinum á Svíum í gærkvöldi. @Instagram-síða Rússlands

Rússlenska kvennalandsliðið í handbolta virðist ekki hafa miklar áhyggjur af kórónuveirunni ef skoðaðar eru nýjustu myndir af hóteli liðsins.

Aftur hefur rússneska kvennalandsliðið í handbolta komið sér í fréttirnar á EM og það ekki fyrir frammistöðu sína á vellinum í Danmörku.

Í gær greindi Vísir frá því að þjálfarinn Ambros Martín, þjálfari liðsins, hafi fengið aðvörun fyrir að fara úr sínu svæði í íþróttahöllinni og talað við framkvæmdastjórann sem var á öðru svæði.

EHF gaf þjálfaranum aðvörun en leikmenn og þjálfarateymi liðsins hafa ekki miklar áhyggjur af kórónuveirunni ef litið er til mynda sem birtust á Instagram síðu sambandsins um helgina.

Þar má sjá rússneska hópinn, þar á meðal þjálfarann Ambros, taka þátt í alls konar leikjum þar sem nándin er ansi mikil. Meðal annars leikur þar sem leikmennirnir eru með skeiðina í munninum ansi nálægt hvor öðrum.

Nú hefur sambandið fjarlægt myndirnar en Søren Paaske, blaðamaður BT, er virkilega hissa á framkomu rússneska landsliðsins og segir hana óábyrga.

„Ég er satt að segja hneykslaður á að Rússarnir halda áfram að taka svona heimskulegar ákvarðanir. Núna hefur Ambros Martín brotið reglurnar og hann ætti að sitja einangraður inn á herbergi þar til hann hefur farið í allar prófanir sem sýna að hann hafi ekki smitast,“ sagði Paaske og hélt áfram.

„En í stað þess þá er hann að leika sér með leikmönnunum og tekur áhættuna að smita einn af þeim. Já, hann tekur áhættuna á að mótið allt verði flautað af ef hann er með kórónuveiruna í líkamanum. Mér finnst þetta sýna fram á að Rússarnir bera ekki virðingu fyrir stöðunni og þetta er vonlaust,“ bætti Paaske við.

Rússarnir unnu Svíþjóð í gærkvöldi 30-26 og eru komnar áfram í næstu umferð. Rússland fékk sex stig úr leikjunum þremur í riðlinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×