Körfubolti

Risaskipti í NBA-deildinni í körfubolta í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook og John Wall í leik á móti hverjum öðrum en Westbrook mætti Wall aldrei sem leikmaður Houston Rockets.
Russell Westbrook og John Wall í leik á móti hverjum öðrum en Westbrook mætti Wall aldrei sem leikmaður Houston Rockets. Getty/Torrey Purvey

Stjörnuleikmennirnir Russell Westbrook og John Wall eru komnir í ný félög í NBA-deildinni í körfubolta eftir athyglisverð leikmannaskipti í gær.

Washington Wizards og Houston Rockets hafa ákveðið að skipta á tveimur af sínum stærstu stjörnum en skiptin hafa verið að malla á bak tjöldin undanfarnar vikur.

Washington Wizards sendir John Wall og varðan valrétt í nýliðavalinu 2023 til Houston Rockets í skiptum fyrir Russell Westbrook.

Russell Westbrook náði þar með aðeins einu tímabili með Houston Rockets en hann kom til liðsins frá Oklahoma City Thunder í öðrum risaskiptum í júlí í fyrra.

Viðræður voru í gangi í síðasta mánuði en ekkert hafði gerst síðan um miðjan nóvember. Allt fór hins vegar skyndilega á flug í gær og framkvæmdastjórarnir gengu frá skiptunum á nokkrum klukkutímum.

BREAKING: The Houston Rockets have traded Russell Westbrook for John Wall and a first round pick!

Posted by Basketball Forever on Miðvikudagur, 2. desember 2020

Báðir leikmennirnir vildu líka komast í burtu frá sínum liðum. Russell Westbrook var ekki sáttur eftir eitt ár hjá Houston Rockets og John Wall hefur lítið sem ekkert spilað með Washington Wizards í tvö ár vegna meiðsla.

Westbrook var með 27,2 stig, 7,9 fráköst og 7,0 stoðsendingar að meðaltali í leik á eina tímabilinu sínu með Houston Rockets en það var fyrsta tímabilið hans frá 2015-16 þar sem hann var ekki mðe þrennu að meðaltali í leik.

John Wall missti af öllu síðasta tímabili og spilaði bara samtals 73 leiki á tveimur tímabilum þar á undan. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning árið 2017 sem skilaði honum 170 milljónum dollurum. Þann samning fékk Wall eftir tímabil með 23,1 stig og 10,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Síðan þá hefur ferill Wall verið á hraðri niðurleið og nánast líflaus eftir að hann sleit hásin þegar hann datt heima hjá sér í febrúar 2019. John Wall er enn bara þrítugur og reynir nú að endurvekja feril sinn hjá Houston Rockets.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.