Skoðun

„Blóðug sóun“ Land­spítalans

Sigrún Jónsdóttir skrifar

Undanfarnar vikur hefur borið á talsverðri umfjöllun um Landspítalann og stöðu hans í miðjum heimsfaraldri. Landspítalinn er nú loks kominn af hættustigi yfir á óvissustig en erfitt er að gleðjast yfir því þegar fregnir berast af hagræðingarkröfu stjórnvalda gagnvart spítalanum og uppsöfnuðum hallarekstri hans, sem mun að óbreyttu skerða þjónustu við sjúklinga.

Skýrsla gæða- og sýkingavarnadeildar Landspítalans um hópsýkinguna á Landakoti hefur endurvakið margsagða sögu um aðstæður og aðbúnað á spítalanum. Umræða um úrelt húsnæði, mönnunarvanda og óviðunandi aðstæður á Landspítalanum er svo sannarlega ekki ný af nálinni og við umfjöllun um skýrsluna hefur langtímafjármögnun heilbrigðiskerfisins borið á góma, eða réttara sagt vanfjármögnun þess. Hagræðingarkrafa og hallarekstur samhliða umræðu um vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins vekur skiljanlega hörð viðbrögð, sérstaklega í ljósi þess að framkvæmdastjóri fjármálasviðs spítalans hefur sagt að krafan eigi eftir að draga úr slagkrafti spítalans í því að takast á við krefjandi verkefni. Hvaða verkefni gæti verið meira krefjandi en einmitt heimsfaraldur COVID-19?

Það hefur sjaldan verið mikilvægara að standa vörð um opinbera heilbrigðiskerfið og þar með talið Landspítalann, sem fór að mati sóttvarnalæknis næstum á hliðina í faraldrinum síðustu vikur. Síðastliðinn áratugur hefur ekki heldur verið dans á rósum fyrir Landspítalann og hið opinbera heilbrigðiskerfi. Eftir hrunið árið 2008 tók við niðurskurðartímabil innan opinbera heilbrigðiskerfisins sem hafði heilmikil áhrif á rekstur spítalans. Nokkrum árum síðar tóku við svokölluð verkfallsár og stigmagnaðist opinber umræða um stöðu Landspítalans, sem var þó búin að vera hávær fyrir. Velferðarráðuneytið brást við umræðunni með gerð skýrslu um afköst á Landspítalanum, rekstrarhagkvæmni hans og framleiðni vinnuafls. Tilgangur hennar var að kortleggja betur stöðu Landspítalans og hvar tækifæri til umbóta lægju þegar bjartari tímar væru fram undan í efnahagsmálum. Bjartari tímar vörðu ekki lengi – enda hófst árið 2020 með látum, bæði með tíðindum um hættuástand á bráðamóttöku Landspítalans og yfirvofandi heimsfaraldri.

Eins og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, nefndi í Kastljósi í síðustu viku eru stjórnvöld í mikilli skuld gagnvart samfélaginu. Frá árinu 2003 hefur Ísland verið eitt fárra samanburðarlanda þar sem dregið hefur úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og kemur fram í fyrrnefndri skýrslu velferðarráðuneytisins að Ísland ver hlutfallslega litlu fjármagni til heilbrigðismála. Á niðurskurðarárunum tókst Landspítalanum að minnka útgjöld án þess að rýra gæði þjónustu sem er eftirtektarvert. Hins vegar krafðist það mikils af starfsfólki. Uppi voru óeðlilegar aðstæður sem voru á engan hátt sjálfbærar til langstíma. Aukning á framlögum til opinbera heilbrigðiskerfisins síðustu ár var því brýn og hafa stjórnvöld endurtekið bent á þá ríflegu aukningu sem svar við umræðu um vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins. Kjarninn hefur hins vegar vakið athygli á því að þótt að árleg rík­is­fram­lög til Land­spít­al­ans hafi tvö­fald­ast á síð­ustu árum í krónum talið þá er hún ekki jafn­mikil ef tekið er til­lit til verð­lags og mann­fjölg­unar á síð­ustu tíu árum. Til viðbótar þá munu framlög ríkissjóðs til Landspítalans ekki haldast í takti við verð- og mannfjöldaþróun í ár og lækka um fimm þúsund krónur á mann miðað við árið 2019.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kemur fram að íslenska heilbrigðiskerfið eigi að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Í nýjustu skýrslu Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) um fjármögnun heilbrigðiskerfa, „Health at a Glance 2020“, kemur fram að Ísland varði um 7,3% af vergri landsframleiðslu í opinbera heilbrigðisþjónustu árið 2019 sem er um tveimur prósentustigum lægra en hlutfall Svíþjóðar og Noregs. Ef fjármögnun Landspítalans er ekki aukin núna, og þjónusta við sjúklinga skerðist þar með, er hætta á að við drögumst enn frekar aftur úr nágrannaþjóðum okkar. Lágmark er að fjármögnun sé tryggð í takti við mannfjölda- og verðlagsþróunar. Titlar eins og „Stórslys í aðsigi á bráðamóttökunni“ og „Landspítalinn – tifandi tímasprengja?“ hafa í gegnum tíðina verið alltof kunnugleg sjón og á ég erfitt með að trúa að það stafi einfaldlega af lélegum rekstri og sóun. Ef um „blóðuga sóun“ sé að ræða innan opinbera kerfisins, líkt og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur gefið í skyn, hvers vegna er þá þjónusta við sjúklinga að skerðast? Að lokum er viðeigandi að rifja upp orð Loga Einarssonar, formanns Samfylkingar, á Alþingi í nóvember þegar hann ávarpaði fjármálaráðherra um mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins: „Það er sóun að láta handvömm ráðherra, eins og í Landsréttarmálinu, kosta ríkið tugi milljóna.“

Höfundur er fulltrúi í miðstjórn Ungra jafnaðarmanna (UJ) og 6. árs læknanemi við Háskóla Íslands. Ályktun UJ um stöðu heilbrigðiskerfisins á tímum COVID-19 má lesa hér .Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.