Skoðun

Samkeppni skattkerfa og auknar fjárfestingar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar

Ég rakst nýverið á auglýsingu frá Viðskiptaráði Íslands (VÍ) þar sem þeir voru að auglýsa grein sína „Ósamkeppnishæft skattkerfi á krítískum tímapunkti“. Ég er sammála ýmsu sem fram kemur þar en set spurningarmerki við annað. Þrátt fyrir að lestur og skrif um skatta sé í hugum flestra allt annað en þurrt og óspennandi lesefni þá ætla ég ekki að láta freistast og fjalla ítarlega um skýrsluna sjálfa hér né ætla ég í djúpa umfjöllun um skattakenningar. Ég ætla heldur að fjalla um þá afdrifaríku niðurstöðu sem getur hlotist af því að hugsa skattkerfi og samkeppnishæfi þess út frá þeirri forsendu að undirboð þurfi að koma til, til að laða að fyrirtæki og fjárfestingu.

Samkeppnishæfni skattkerfa má skilgreina á fleiri en einn veg. Hugveitan Tax Foundation, sem gaf út skýrsluna sem grein VÍ er að mestu leiti útdráttur úr, metur samkeppnishæfni skattkerfa að miklu leiti út frá þeim jaðarsköttum sem einstaklingar og fyrirtæki þurfa að greiða af tekjum sínum, neyslu og eignum. Það þýðir með öðrum orðum að því hærri sem hæstu skattar eru því ósamkeppnishæfari eru löndin. Hugsunin er að mörgu leiti skiljanleg þar sem að sú aukna hnattvæðing og sú stafræna tækni sem hefur sprottið fram á seinustu áratugum hefur liðkað verulega til fyrir flutningi fjármagns, fyrirtækja og fjárfestinga á milli landa. Almennt virðist það vera í brennidepli að horfa á skattlagningu á fyrirtæki og minna á skattlagningu einstaklinga. Kenningin er sú að lækkun skatta á fyrirtæki (eða liðka aðrar reglur sem geta aukið hagnað eftir skatta) leiði til aukinnar fjárfestingar í landinu. En hverjum er þessi samkeppni til góðs á endanum? Tökum dæmi.

Land A kemst að því að það er með ósamkeppnishæft skattkerfi. Eitt ráð við því er að lækka skatta á fyrirtæki. Land A lækkar skatta og verður samkeppnishæfara í framhaldinu, mögulega eykst fjárfesting (meira um það neðar í greininni). Eftir að samkeppnishæfni A jókst áttar land B sig á því að samkeppnishæfni þess hefur versnað. Land B beitir sama ráði og land A og lækkar skatta niður fyrir skatta í landi A. Land B er á ný orðið samkeppnishæfara. Þannig getur það gengið koll af kolli. Þá er spurningin hver er loka niðurstaðan til langtíma þegar öll lönd hafa skrúfað niður skattana hjá sér til þess að verða samkeppnishæfari og laða til sín fjárfestingu. Hver er sigurvegarinn? Ef allir lækka skatta er ekkert land í raun að ná forskoti. Það eina sem gerðist var að látið var undan kröfum eða hótunum þeirra sem eiga fjármagn að þeir fari annað eða taki ekki þátt ef skattar verði ekki lækkaðir.

Besta leiðin til þess að komast á toppinn í þessari skatta samkeppni væri að vera skattalaust land vegna þess að enginn gæti boðið betur og það færi enginn tími í neitt tengt skattaskilum eða álíka sem dregur úr samkeppnishæfni. Hins vegar þá er alls óvíst að sú staða myndi skila mestri fjárfestingu og alls ekki mestum jöfnuði né almennt aukinni lífsánægju. Það kemur til vegna þeirrar staðreyndar að sama hversu samkeppnishæft skattkerfið er þá þurfa lönd að bjóða upp á gott starfsumhverfi til þess að fjárfestar vilji fjárfesta þar. Í því felst að undirstöður samfélagsins þurfa að vera góðar svo sem stofnanir, innviðir, skólakerfið, heilbrigðisstofnanir o.fl. Annars er ekki hægt að fá hæft starfsfólk og koma vörum á markað með góðu móti. Þessir þættir samfélagsins eru að mestu leiti fjármagnaðir í gegnum skatttekjur.

Mjög erfitt er að svara því hver sé hin fullkomna skattprósenta. Það eru einfaldlega of margar breytur, hagkerfin það flókin og svörin öll eftir því á hvað er stefnt. En það eru þó ýmsar spurningar sem er þess virði að spyrja. Svo sem hver kemur til með að hagnast á lækkun skatta á fyrirtæki? Skilar lækkun skatta á fyrirtæki nægilega mikilli aukinni fjárfestingu og leiðir það til betri lífskjara í landinu? Rökin fyrir því að lækka ætti skatta á fyrirtæki er mjög gjarnan sú að það stuðli að aukinni fjárfestingu sem verði svo öllum til góðs. Ég er hins vegar ekki svo viss um að það sé alltaf raunin. Til að mynda hefur hugveitan Economic Policy Institute sýnt í greiningum sínum á gögnum fyrir OECD löndin að það er ekki marktækt samband á milli aukinnar fjárfestingar og breytingum á tekjuskatti fyrirtækja. Raunar sýna gögnin veika fylgni milli hækkana á tekjuskatti fyrirtækja og auknum fjárfestingum ef eitthvað er.

Í öllu falli tel ég að í þessari umræðu sé yfirleitt verið að viðra hugmyndir um að gera þeim efnameiri mikinn greiða í þeirri von að þeir geri svo eitthvað sem myndi nýtast fjöldanum. Ég er frekar á þeirri skoðun að ef við viljum auka fjárfestingu og koma meira lífi í hagkerfið þá sé almennt betra að nálgast það frá hinum endanum, þ.e. hinum almenna launþega. Ef það eru lækkaðir skattar á launþega eru tvær mögulegar útkomur eða blanda af þeim. Í fyrsta lagi væri þá hægt að borga starfsmönnum lægri laun (fyrir skatta) þannig að þeir endi samt með sama fjármagn í vasanum. Það þýðir að það er auðveldara að reka fyrirtæki, rétt eins og ef fyrirtækið sjálft hefði fengið skattalækkun. Hins vegar væri hægt að borga starfsmönnum sömu laun fyrir skatta og þeir enda þá með meira í vasanum. Það leiðir þá til þess að fleiri hafa ráð á að kaupa meira og fyrirtækin standa frammi fyrir aukinni eftirspurn og hærri tekjum þar af leiðandi. Loka niðurstaðan er sennilega blanda af þessu tvennu en það ætti að leiða til sömu niðurstöðu og hin meintu áhrif þess að lækka skatta á fyrirtæki. Ég hins vegar treysti mun frekar þeim efnaminni til þess að koma fjármununum beint í umferð og þar með hagkerfinu á hreyfingu fremur en þeim sem eru þegar efnamiklir.

Vandinn í dæminu með lönd A og B er að löndin eru í samkeppni í stað þess að sameinast um markmið og fá þannig bætta samningsstöðu líkt og verkalýðsfélög gera fyrir félagsmenn sína. Ég tel að mörg af þeim stærstu vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag og munum koma til með að standa frammi fyrir í framtíðinni eigi rætur sínar að rekja til hvernig skattlagningu er háttað. Þá á ég við hvernig við bregðumst við þessari samkeppni og þrýstingi um að láta undan stórfyrirtækjum. Þær glufur sem eru í skattkerfunum sem gera fyrirtækjum kleift að flytja óskattlagðar tekjur í skattaskjól og borga ekki sinn skerf til samfélagsins. Þann vanda sem skattlagning á fyrirtækjasamsteypur sem starfa í mörgum löndum er, sér í lagi þær sem starfa mest megnis í gegnum internetið líkt og stóru samfélagsmiðlanir gera. Einnig hvernig risa fjölskyldufyrirtæki erfast frá kynslóð til kynslóðar með þeim gríðarlegu ítökum á samfélögin sem þau starfa í. Því er mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Við Íslendingar þekkjum vel hvað það getur verið erfitt að breyta hlutunum eftir á og sem dæmi má nefna hvernig komið er fyrir okkur með kvótakerfið, verðtryggð lán og fleiri ólán sem við höfum leyft að ganga yfir okkur.

Höfundur er viðskiptafræðingur og doktorsnemi í hagfræðiAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Taktu tvær

Arnar I. Jónsson,Heiðrún Björk Gísladóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.