Handbolti

Aron hafði betur á gamla heimavellinum, Rúnar fór á kostum í tapi og Oddur gerði níu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk i kvöld.
Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk i kvöld. Barcelona

Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk er Barcelona vann sex marka sigur á Kiel, 32-26, í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Börsungar voru einu marki yfir er liðin gengu til búningsherbergja, 16-15.

Þeir skelltu hins vegar í lás í síðari hálfleik og heimamenn í Kiel skoruðu einungis ellefu mörk á síðasta hálftímanum.

Aron skoraði þrjú mörk úr níu skotum en hann var ansi sigursæll með Kiel á sínum tíma. Börsungar eru með með fullt hús á toppi riðilsins eftir sex umferðir en Kiel er með sjö stig í 4. sætinu.

Sigvaldi Guðjónsson skoraði úr báðum skotum sínum er Kielce vann góðan útisigur á Vardar, 33-29, í sömu keppni. Kielce er með ellefu stig eftir sjö leiki á toppi A-riðilsins.

Janus Daði Smárason skoraði tvö mörk er Göppingen vann öruggan sigur á Nordhorn-Lingen, 29-20, en Göppingen er í 8. sæti þýsku deildarinnar.

Oddur Grétarsson gerði níu mark er Balingen vann eins marks sigur á Erlangen, 34-32, en Akureyringurinn var markahæsti leikmaður Balingen. Þetta var annar sigur þeirra á leiktíðinni en þeir eru í 16. sætinu.

Rúnar Kárason lék á alls oddi er Ribe Esbjerg tapaði fyrir TTH Holstebro, 30-24, eftir að staðan var 16-15 í hálfleik.

Rúnar skoraði átta af mörkum Ribe en hann skaut alls níu sinnum. Gunnar Steinn Jónsson skoraði tvö mörk en Daníel Ingason komst ekki á blað. Ribe er í 12. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×