Körfubolti

Héraðsdómur dæmdi ÍR til að greiða Sigurði tæpar tvær milljónir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með ÍR gegn KR í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn vorið 2019.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með ÍR gegn KR í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn vorið 2019. vísir/vilhelm

Körfuknattleiksdeild ÍR þarf að greiða Sigurði Gunnari Þorsteinssyni tæpar tvær milljónir króna auk dráttarvaxta vegna vangoldinna launa. Dómur þess efnis féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Sigurður stefndi ÍR vegna launa sem hann taldi sig eiga inni hjá félaginu. Haustið 2019 skrifaði Sigurður undir tveggja ára samning við ÍR eftir stutta dvöl í Frakklandi. Hann sleit krossband í hné eftir nokkrar mínútur í fyrsta leik sínum með ÍR, gegn Þór á Akureyri 25. október 2019, og lék ekkert meira með á tímabilinu.

Samningi Sigurðar við ÍR var rift síðasta vor en félagið ákvað að greiða honum ekki laun þar sem það taldi hann ekki hafa uppfyllt sinn hluta samningsins.

Sigurður höfðaði mál á hendur ÍR og krafði félagið um að greiða sér 1.866.000 krónur auk dráttarvaxta og greiðslu málskostnaðar.

Dómurinn féllst á kröfur Sigurðar en mat hans var að meiðsli leikmannsins hafi ekki verið réttmæt ástæða til að segja samningi hans upp. Í dómnum kemur fram að áhætta vegna slysa í samningsbundnum körfuboltaleikjum hvíli á félaginu, ekki leikmanninum sjálfum.

ÍR þarf því að greiða Sigurði tæpar tvær milljónir í vangoldin laun auk dráttarvaxta og 800 þúsund krónur í málskostnað. ÍR getur áfrýjað niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar.

Dóminn í heild sinni má lesa með því að smella hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.