Körfubolti

Þjálfari bikarmeistaranna pirraður á Twitter: Meðan borum við í nefið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Guðjónsson að stýra Stjörnumönnum í bikarúrslitaleiknum á síðustu leiktíð.
Arnar Guðjónsson að stýra Stjörnumönnum í bikarúrslitaleiknum á síðustu leiktíð. Vísir/Daníel Þór

Arnar Guðjónsson, þjálfari bikarmeistara Stjörnunnar, er eins og fleiri orðinn þreyttur á því að bíða eftir að körfuboltinn fái aftur grænt ljós á Íslandi.

Körfuboltinn hefur verið bannaður á Íslandi síðan í byrjun október eða síðan síðasti leikurinn fór fram 6. október.

Arnar Guðjónsson stýrði Stjörnunni í fyrsta og eina leiknum í Domino´s deildinni 2. október síðastliðinn eða fyrir 45 dögum síðan.

Arnar hefur verið í smá Twitter herferð á síðustu dögum þar sem hann vekur athygli á því hversu mörg lönd í Evrópu leyfa körfubolta á meðan allt er í frosti hér heima á Íslandi.

„Laugardagur til lukku hjá meistaraflokkum þessara landa, fengu að vinna sína vinnu/áhugamál i gær,“ skrifaði Arnar og daginn áður endaði hann upptalingu á þeim löndum sem spiluðu meistaraflokksleiki í körfubolta kvöldið áður með: „Meðan borum við í nefið.“ Í október átti hann líka færsluna „Peð á taflborði Svandísar & Þórólfs.“

Arnar er eins og fleiri íslenskir þjálfarar orðnir mjög pirraður á því að bíða eftir að því að fá að fara aftur af stað.

Körfuknattleikssambandið og Handknattleiksambandið hafa eins og önnur íþróttasambönd farið eftir hörðum sóttvarnaraðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. Reglugerðin gildi fyrst frá 31. október til og með 17. nóvember en var síðan framlengd til 1. desember næstkomandi.

1. desember þá verður lið Arnars ekki búið að spila leik í sextíu daga og það er ljóst að ef verður létt á reglunum 1. desember þegar kemur að íþróttakappleikjum þá þurfa liðin að minnsta kosti tvær vikur til æfinga áður en þau spila aftur leiki á Íslandsmótinu.

Arnar Guðjónsson er á sínu þriðja tímabili með Stjörnuliðið. Liðið hefur unnið bikarmeistaratitilinn á báðum tímabilunum og í bæði skiptin orðið deildarmeistari.

Íslandsbikarinn hefur aftur á móti aldrei komið í Garðabæinn og frábært lið Arnars fékk ekki einu sinni að keppa um hann í fyrra eftir að úrslitakeppninni var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi um Twitter færslur Arnars á síðustu dögum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.