Körfubolti

Trúir ekki öðru að ríkið aðstoði KKÍ

Anton Ingi Leifsson skrifar
Teitur og Sævar fóru yfir landslagið á föstudagskvöldið.
Teitur og Sævar fóru yfir landslagið á föstudagskvöldið. STÖÐ 2 SPORT

Teitur Örlygsson og Sævar Sævarsson, körfuboltaspekingar í Domino's Körfuboltakvöldi, segja að ríkisvaldið þurfi að stíga inn í og hjálpa KKÍ á erfiðum tíðum.

Körfuboltinn er á ís nú vegna kórónuveirunnar eins og allar íþróttir landsins en hann fer ekki að rúlla fyrr en um miðjan nóvembermánuð hið fyrsta.

Því eru mörg félögin að berjast í bökkum fjárhagslega og það málefni var til umræðu í Domino's Körfuboltakvöldi á föstudagskvöldið.

„Þessar vikurnar eru sjálfboðaliðarnir á fullu að vinna til þess að fjármagna félögin. Það eru fullt af útlendingum á Íslandi sem eru bara að æfa körfubolta. Þeir eru ekkert að spila. Ég fór upp í íþróttahús í gær og fékk þetta. Gríma merkt mínu félagi. Seldist upp eins og skot,“ sagði Teitur. Sævar tók við boltanum.

„Ég þekki nokkra sem eru í stjórn hjá Keflavík og hjá Njarðvík. Bara hvað fólk tók vel í þetta í kringum samfélagið, hjá báðum félögum. Þetta er auka milljón á hvern klúbb. Ég trúi ekki öðru en að hin opinbera stígi inn og hjálpi.“

„Þeir verða einhvernveginn að hjálpa KKÍ. Við vorum að tala um það í bílnum að þegar þú ert að spila þrjá leiki í viku þá kosti það 80-90 þúsund krónur bara dómarakostnaður á hverjum leik. Það verða engir áhorfendur og það verður engin innkoma. Þetta er enn þannig að félögin í körfuboltanum eru að borga dómarakostnað. Er hægt að gera eitthvað þarna? Er hægt að minnka þennan kostnað einhvernveginn? Þetta eru sjálfboðaliðar sem eru að vinna baki brotnu að reyna að halda þessu gangandi. Geta dómarar tekið launalækkun? Það eru allir að skera niður,“ sagði Teitur.

Sævar bætti svo við að ríkið væri að aðstoða kirkjuna um mikla fjármuni á ári og því væri mögulega hægt að nýta eitthva af þeim peningum í íþróttirnar, þar á meðal körfuboltann.

Klippa: Domino's Körfuboltakvöld - Ríkið og íþróttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×