Golf

Flykkjast í golf og vellirnir enn grænir

Sindri Sverrisson skrifar
Hvaleyrarvöllur er nú opinn að nýju eftir 10 daga stopp. Þessi mynd er tekin að sumri en völlurinn er enn grænn eins og sjá má í meðfylgjandi innslagi.
Hvaleyrarvöllur er nú opinn að nýju eftir 10 daga stopp. Þessi mynd er tekin að sumri en völlurinn er enn grænn eins og sjá má í meðfylgjandi innslagi. seth@golf.is

Golfvellir á höfuðborgarsvæðinu opnuðu að nýju í dag eftir tíu daga lokun vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda.

Þrátt fyrir að kominn sé 20. október eru golfvellir enn grænir og í góðu ástandi miðað við árstíma. Fólk var því fljótt að tryggja sér rástíma þegar ljóst varð að hægt yrði að spila í góða veðrinu á höfuðborgarsvæðinu í dag.

„Þetta er örugglega met hjá okkur svona seint í október, og það er bara gífurlegur áhugi. Fólk virðist hafa dágóðan tíma til að iðka golf sem er frábært,“ segir Ólafur Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Keilis og grasvallasérfræðingur, við Ríkharð Óskar Guðnason í Sportpakkanum á Stöð 2.

Ljóst er að fjöldi kylfinga mun nýta sér það að geta spilað golf næstu daga ef fram heldur sem horfir.

„Ástandið er mjög gott og við höfum sennilega sjaldan fengið svo fáar nætur með næturfrosti. Það er ástæðan fyrir því að völlurinn heldur svona vel lit og er í fantagóðu ástandi. Á meðan að veðrið er svona fínt höldum við áfram, og lengstu spár í dag segja okkur að við getum haldið áfram í 10-15 daga hið minnsta.“

Segir umræðuna hafa verið á villigötum

Mikillar óánægju gætti þegar ákveðið var að loka golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu. Viðbragðshópur Golfsambands Íslands beindi tilmælum þess efnis til golfklúbba, eftir að sóttvarnalæknir hafði mælst til þess að völlunum yrði lokað. Ólafur segir gagnrýni á lokun vallanna hafa verið á villigötum:

„Hún er skiljanleg að mörgu leyti en það hafa verið margar rangfærslur varðandi þessa hluti. Ég sat nú í þessum viðbragðshópi golfsambandsins og öll sú vinna sem þar var unnin var einhörð í að reyna að halda golfi opnu. Það er alls ekkert hagsmunamál golfklúbba að þurfa að loka. Þetta voru einfaldlega tilmæli sem við fengum beint frá yfirvöldum, og þar af leiðandi fórum við bara eftir þeim.“

Klippa: Sportpakkinn - Golfvellir opnir að nýju

Tengdar fréttir

Forseti GSÍ skilur reiði kylfinga

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, segir að það hafi verið erfitt að hunsa tilmæli sóttvarnayfirvalda um að loka golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×