Handbolti

Leikmaður Aftureldingar með kórónuveiruna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Magnússon er á sínu fyrsta timabili sem þjálfari Aftureldingar.
Gunnar Magnússon er á sínu fyrsta timabili sem þjálfari Aftureldingar. vísir/hulda margrét

Einn leikmaður karlaliðs Aftureldingar í handbolta er með kórónuveiruna.

„Ég er með einn leikmann í einangrun sem er með covid og með tvo í sóttkví,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, í Seinni bylgjunni í gær.

„Sem betur fer þegar leikmaðurinn smitaðist vorum við ekki að hittast og ekki að æfa þannig að það hafði engin áhrif á liðið.“

Gunnar tók við Aftureldingu af Einari Andra Einarssyni eftir síðasta tímabil og óhætt að segja að fyrstu mánuðir hans í starfi hafi verið krefjandi. Mikil meiðsli hafa herjað á leikmannahóp Aftureldingar. Rétt áður en keppni í Olís-deild karla hófst sleit Birkir Benediktsson, einn besti leikmaður liðsins, hásin á æfingu og verður væntanlega ekkert með í vetur.

„Þetta hefur verið svolítið púsluspil, þessir fyrstu mánuðir. Það verður að segjast alveg eins og er að þetta er ekki eins og maður teiknaði þetta upp. En þetta er hluti af þessu og verkefni sem við höfum fengið, að vera alltaf að púsla liðinu saman upp á nýtt milli leikja. Ég hef sjaldan eða aldrei verið með sama lið tvo leiki í röð,“ sagði Gunnar.

Hann segir að leikmaðurinn sem greindist með kórónuveiruna hafi það ágætt.

„Hann er mjög hress og er vonandi að komast yfir versta hjallann. Hann fór nokkuð vel í gegnum þetta, sendi engan í sóttkví og er á góðum batavegi,“ sagði Gunnar.

Þrátt fyrir meiðsli og manneklu er Afturelding á toppi Olís-deildarinnar með sjö stig og er eina lið deildarinnar sem hefur ekki enn tapað leik.

Klippa: Seinni bylgjan - Smit hjá Aftureldingu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×