Körfubolti

Butler magnaður er Miami hélt sér á lífi | Myndbönd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jimmy Butler var stórkostlegur í nótt er Miami vann fimmta leik úrslitaeinvígis NBA-deildarinnar. Staðan er nú 3-2 fyrir Lakers en liðin mætast aftur á aðfaranótt mánudags.
Jimmy Butler var stórkostlegur í nótt er Miami vann fimmta leik úrslitaeinvígis NBA-deildarinnar. Staðan er nú 3-2 fyrir Lakers en liðin mætast aftur á aðfaranótt mánudags. Mike Ehrmann/Getty Images

Miami Heat er enn á lífi í úrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta eftir þriggja stiga sigur á Los Angeles Lakers í fimmta leik liðanna, lokatölur 111-108. Heat getur þakkað enn einni ótrúlegri frammistöðu Jimmy Butler en hann var með þrefalda tvennu í leiknum og spilaði allan leikinn ef frá eru taldar þær 48 sekúndur sem hann sat á bekknum.

Staðan í einvíginu er 3-2 og Lakers er enn aðeins einum leik frá sínum fyrsta titli í áratug. Heat eru hins vegar búnir að sýna það að þeir eru ekkert að fara leggja árar í bát og rétta Lakers þennan titil.

Leikurinn var mjög jafn frá upphafi til enda en Lakers urðu fyrir miklu áfalli er Anthony Davis - önnur af ofurstjörnum liðsins - virtist meiðast á hásin í fyrsta leikhluta. Hann haltraði af velli, fór inn í búningsklefa en kom til baka í öðrum leikhluta leiksins. 

Miami lék lausum hala er Lakers voru án Davis og náðu mest 11 stiga forystu í 2. leikhluta. Munurinn var kominn niður í eitt stig þegar Heat fór í síðustu sókn fyrri hálfleiks. Jimmy Butler fór í ómögulegt þriggja stiga skot sem flaug ofan í og Heat því með fjögurra stiga forystu í hálfleik, 60-56.

Síðari hálfleikur var líkt og sá fyrri í járnum. Munurinn var aðeins tvö stig þegar Duncan Robinson fór í erfitt þriggja stiga skot undir lok 3. leikhluta. Hann setti skotið ásamt því að fá vítaskot og munurinn því allt í einu orðinn sex stig, 86-80. Robinson átti frábæran leik og setti niður sjö þriggja stiga skot í leiknum.

Lakers komust loksins yfir um miðjan 4. leikhluta þegar Kentavious Caldwell-Pope setti niður þriggja stiga skot og kom Lakers einu stigi yfir, 97-96. Lakers voru enn einu stigi yfir þegar 21 sekúnda voru eftir af leiknum, staðan þá 108-107 og allt undir. Heat tóku leikhlé og að sjálfsögðu var það Butler sem fékk boltann. 

Lakers sofnaði á verðinum og Butler keyrði að körfunni þar sem Davis braut á honum. Butler hélt ró sinni og setti bæði skotin niður. Miami yfir, 109-108, og 16.8 sekúndur eftir af leiknum. Síðast sókn Lakers var hálfgerð katastrófa. 

LeBron keyrði inn að körfunni, dró í sig leikmenn Heat og kastaði honum svo til baka á Danny Green - sem var aðeins með átta stig í leiknum. Green fór í þriggja stiga skot sem var of stutt, hrökk af hringnum til Markieff Morris sem ákvað frekar en að fara í sniðskot að reyna finnda Davis undir körfunni. Það gekk ekki, boltinn út af, Lakers braut og Miami nýtti vítaskotin í blálokin.

Lokatölur 111-108 og Miami eru enn á lífi í baráttunni um NBA-meistaratitilinn.

Hjá Miami var Jimmy Butler allt í öllu enda spilaði hann nær allan leikinn. Hann endaði með þrefalda tvennu, skoraði 35 stig, tók 12 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Hann var þó ekki einn í liði og eins og áður kom fram setti Duncan Robinson niður sjö þriggja stiga skot. Robinson endaði með 26 stig. Kendrick Nunn kom þar á eftir með 14 stig.

Hjá Lakers spiluðu þeir LeBron James og Anthony Davis mest allra þrátt fyrir að sá síðarnefndi hefði haltrað út af í fyrsta leikhluta. Davis virtist þó ekki alveg heill heilsu þrátt fyrir að spila allan þennan tíma. Hann skoraði 28 stig og tók 12 fráköst á þeim 42 mínútum sem hann spilaði í nótt. 

LeBron var stigahæstur en hann gerði 40 stig ásamt því að taka 13 fráköst og gefa sjö stoðsendingar. Caldwell-Pope var eini leikmaður Lakers sem skilaði tveggja stafa tölu í stigum, hann gerði 16 stig í leiknum.

Það er stutt á milli í þessu og það verður forvitnilegt að sjá hvort Butler eigi nóg á tankinum til að leika sama leik á aðfaranótt mánudags. Sama verður sagt um Davis sem þarf að hrista meiðslin af sér á innan við tveimur sólahringum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×