Körfubolti

Lakers einum sigri frá fyrsta titlinum í áratug | Myndbönd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rajon Rond og LeBron James eru tveir af reynslumeiri leikmönnum NBA-deildarinnar.
Rajon Rond og LeBron James eru tveir af reynslumeiri leikmönnum NBA-deildarinnar. EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Los Angeles Lakers og Miami Heat mætast í fimmta leik úrslitaeinvígis NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Staðan er 3-1 fyrir Lakers og sigur þýðir að félagið er meistari í fyrsta skipti í heilan áratug.

Styttra er síðan Miami Heat varð meistari en liðið varð meistari árin 2012 og 2013. Maðurinn á bakvið þá titla – LeBron James – er nú aðalmaðurinn hjá Lakers og ekki er hægt að sjá á þessum magnaða leikmanni að hann sé á sínu 17. ári í deildinni.

Pau Gasol, fyrrum miðherji Lakers, var ásamt Kobe Bryant heitnum aðalmaðurinn bakvið síðasta titil Lakers sem kom árið 2010.

Bæði Lakers og Heat eru verðskuldað í úrslitum. Eftir að hafa sópað Indiana Pacers þá lögðu Heat bæði Milwaukee Bucks og Boston Celtics. Maimi fór létt með Bucks – sem voru með bestan árangur allra liða í deildarkeppninni. Fór það svo að Jimmy Butler og félagar unnu seríuna 4-1.

Celtics reyndust aðeins erfiðari en Miami vann þá seríu 4-2.

Lakers hefur hingað til aðeins átt einn slakan leik í hverri seríu. Eftir óvænt tap gegn Portland Trail Blazers í fyrsta leik þá unnu þeir næstu fjóra. Það sama var upp á teningnum gegn James Harden og félögum í Houston Rockets.

Denver Nuggets komu svo öllum á óvart og lögðu Los Angeles Clippers í undanúrslitum Vesturstrandarinnar. Því voru það Nuggets og Lakers sem mættust í úrslitum frekar en liðin frá Englaborginni.

Lakers vann þá seríu einnig 4-1 og eiga möguleika á að gera slíkt hið sama í nótt. Lakers hefur gefið það út að það muni spila í svörtu treyjunum sínum sem eru til heiðurs Kobe.

Jimmy Butler hefur dregið vagninn fyrir Miami undanfarið og var til að mynda stórkostlegur í eina sigurleik Miami til þessa. Liðið varð fyrir miklu áfalli þegar bæði Bam Adebayo og Goran Dragić meiddust en þeir misstu af sigurleik Miami. Adebayo var með í síðasta leik og Dragić snýr vonandi aftur í nótt.

Þessir þrír þurfa allir að eiga frábæran leik ef þeir ætla sér að stöðva LeBron, Anthony Davis og félaga í Lakers. 

LeBron er með að meðaltali 26.9 stig, 8.8 stoðsendingar og 10.5 fráköst á meðan Davis er með 28.1 stig og 9.3 fráköst að meðaltali. Þá hafa aðrir leikmenn Lakers einnig stigið upp þegar á þarf en Kentavious Caldwell-Pope skoraði til að mynda 15 stig í síðasta leik liðanna.

Rajon Rondo steig svo upp í öðrum leik einvígisins og gerði 16 stig ásamt því að gefa 10 stoðsendingar.

Hinum megin hefur allt snúist um Jimmy Butler sem er í fyrsta skipti kominn í úrslitarimmu deildarinnar. Hann er með 27.6 stig að meðaltali í leik ásamt því að gefa 10 stoðsendingar og taka 7.8 fráköst.

Reikna má með hörkuleik í nótt. Það verður að viðurkennast að það virðist sem LeBron James muni vinna sinn fjórða NBA-titil á ferlinum í nótt en ef einhver getur komið í veg fyrir það – þó ekki nema tímabundið – þá er það Jimmy Butler.


Tengdar fréttir

Lakers komið hálfa leið að titlinum

Los Angeles Lakers sigraði Miami Heat í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í nótt og er liðið komið með 2-0 forystu. Það þarf að vinna fjóra leiki til að vinna meistaratitilinn.

Lakers með yfirhöndina í úrslitunum

Anthony Davis skoraði 34 stig og tók níu fráköst þegar Los Angeles Lakers rúlluðu yfir Miami Heat í fyrsta leik úrslita NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.