Körfubolti

Jimmy Butler magnaður þegar vængbrotið Miami Heat lið vann Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jimmy Butler var stórkostlegur í nótt og hér skorar hann eina af körfunum sínum í leiknum.
Jimmy Butler var stórkostlegur í nótt og hér skorar hann eina af körfunum sínum í leiknum. AP/Mark J. Terrill

Jimmy Butler átti besta leikinn sinn á ferlinum og einn af þeim betri í sögu lokaúrslita NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt þegar Miami Heat vann Los Angeles Lakers 115-104 og minnkaði þar með muninn í 2-1 í einvígi liðanna um NBA-meistaratitilinn.

Los Angeles Lakers vann tvo fyrstu leikina sannfærandi og að auki meiddust lykilmennirnir Bam Adebayo og Goran Dragic hjá Miami Heat. Útlitið var því svart fyrir þriðja leikinn í nótt og margir farnir að tala um sóp.

Einn leikmaður í Miami Heat liðinu var hins vegar ekkert á því að gefast upp.

Jimmy Butler endaði leikinn með 40 stiga þrefalda tvennu en hann var með 40 stig, 11 fráköst og 13 stoðsendingar í leiknum.

„Ég er að alltaf að segja Erik þjálfara að ég sé tilbúinn, tilbúinn fyrir stóra sviðið og fyrir hvað sem hann vill að ég geri,“ sagði Jimmy Butler eftir leikinn.

„Þetta er það sem hann vildi og þetta er það sem við vildum. Það er erfitt að greina eða lýsa Jimmy þar til að þú upplifir hann á milli línanna fjögurra. Hann er óviðjafnanlegur, afburðar keppnismaður og við þurftum á því að halda í kvöld,“ sagði Erik Spoelstra, þjálfari Miami Heat.

Butler var aðeins þriðji leikmaðurinn í sögunni til að ná fjörutíu stiga þrennu í lokaúrslitunum.

„Hann er einn mesti keppnismaðurinn sem við höfum í leiknum okkar. Ég elska tækifærið að fá að spila á móti honum. Ég veit ekki hversu mörg skipti í viðbót ég fæ á þessu sviði og ég mun því líta til baka í framtíðinni á það að hafa fengið tækifæri til að mæta svona keppnismanni. Ég mun sakna þess þegar ég er hættur,“ sagði LeBron James.

LeBron James var með 25 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar í liði Lakers en þeir Kyle Kuzma og Markieff Morris komu næstir með nítján stig hvor. Anthony Davis var búinn að vera stórkostlegur í fyrstu tveimur leikjunum en skoraði ekki stig í fyrsta leikhluta í nótt og endaði með 15 stig.

Tyler Herro og Kelly Olynyk skoruðu báðir sautján stig fyrir Miami liðið og þá var Duncan Robinson með 13 stig.

Leikur fjögur er annað kvöld en það lið verður NBA-meistari sem fyrr vinnur fjóra leiki.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×