Körfubolti

Blikar enn án sigurs eftir tap í Hafnarfirði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alyesha Lovett var stigahæst á vellinum með 25 stig.
Alyesha Lovett var stigahæst á vellinum með 25 stig. vísir/vilhelm

Haukar unnu öruggan 12 stiga sigur er Breiðablik heimsótti Ásvelli í Domino´s deild kvenna í kvöld, lokatölur 63-51.

Fyrir leik var Breiðablik án stiga en Haukar með tvö stig. Reyndar unnu Blikar Íslandsmeistara Vals í fyrstu umferð en voru með ólöglegan leikmann og því var Val dæmdur 20-0 sigur. Blikar töpuðu svo naumlega gegn Fjölni í síðustu umferð og þriðja tapið kom gegn Haukum í kvöld.

Haukar töpuðu naumlega fyrir bikarmeisturum Skallagríms í fyrstu umferð en sigruðu svo Snæfell í annarri umferðinni.

Haukar voru með yfirhöndina allan tímann í kvöld og voru yfir 31-23 í hálfleik. Heimastúlkur gerðu svo gott sem út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks og þó Blikar hafi unnið síðasta fjórðung leiksins með fimm stiga mun þá töpuðu þær samt sem áður leiknum með 12 stiga mun.

Lokatölur 63-51 og annar sigur Hauka á tímabilinu staðreynd.

Aylesha Lovett var stigahæst í liði Hauka með 25 stig. Hjá Blikum var Jenný Harðardóttir stigahæst með 14 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×