Handbolti

Segja að Britney fái ekki ósanngjarna meðferð hjá dómurunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Britney Cots er á sínu þriðja tímabili hjá FH.
Britney Cots er á sínu þriðja tímabili hjá FH. mynd/fh

Eftir tap FH fyrir KA/Þór, 19-21, um helgina kvartaði Jakob Lárusson, þjálfari FH-inga, yfir því að besti sóknarmaður liðsins, Britney Cots, fengi ekki sanngjarna meðferð hjá dómurum Olís-deildarinnar.

„Mér þótti og þykir Britney ekki fá sömu meðferð og aðrir leikmenn í þessum leik. Það mátti hanga á henni og toga í hana [...] Ég hef rætt þessi mál við marga dómara síðan hún fór að spila með okkur. Það er gjörsamlega óþolandi og ólíðandi hvernig farið er með hana í leikjum,“ sagði Jakob í samtali við handbolta.is eftir leikinn gegn KA/Þór.

Haraldur Þorvarðarson fór yfir leikinn fyrir Seinni bylgjuna og gat ekki séð að Britney fengi ósanngjarna meðferð hjá dómurunum.

„Hún var tekin úr umferð. Hún er rosalega hreyfanleg og alltaf á milljón. Það voru einhver peysutog en þeim var refsað 2-3 sinnum fyrir það af dómurunum. Þær fengu tvær mínútur fyrir það. Í þessum leikjum sem eru búnir, ég get ekki séð að hún fái misjafna meðferð,“ sagði Haraldur. Þorgerður Anna Atladóttir tók í sama streng.

„Síðasti leikur, gegn Haukum, var líka mjög jafn. Ég lýsti honum og tók ekki eftir þessu þá, að hún fái öðruvísi meðhöndlun. En auðvitað fylgir alltaf harka þegar þú tekur leikmann út, sérstaklega þegar hann er svona hreyfanlegur og vill komast í boltann. En eins og Halli segir var þeim refsað fyrir það og ég veit ekki hvað hann vill meira fyrir það.“

Britney skoraði þrjú mörk í leiknum gegn KA/Þór eftir að hafa skorað ellefu mörk í fyrstu tveimur leikjum FH í Olís-deildinni.

Klippa: Seinni Bylgjan - Umræða um Britney Cots

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×