Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Haukar 26-32 | Gestirnir með fullt hús

Benedikt Grétarsson skrifar
Haukar - ÍBV Olís deild karla vetur 2020 - 2021 handbolti Hsí
Haukar - ÍBV Olís deild karla vetur 2020 - 2021 handbolti Hsí Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Haukar eru með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í Olísdeild karla í handknattleik. Haukar mættu Stjörnunni í Garðabæ og unnu 26-32 eftir að staðan var 14-15 í hálfleik. Orri Freyr Þorkelsson skoraði 10 mörk fyrir Hauka og Atli Már Báruson skoraði átta mörk. Björgvin Páll Gæústavsson varði 17 skot í markinu.

Tandri Már Konráðsson skoraði sex mörk fyrir Stjörnuna, sem hefur eitt stig að loknum þremur leikjum.

Stjarnan byrjaði leikinn í vörn sem stundum er kennd við ÍBV og það þýddi að Tjörvi Þorgeirsson þurfti að sækja í svæði sem mynduðust í vörninni. Það gerði miðjumaðurinn heldur betur og Tjörvi gerði sér lítið fyrir og skoraði fyrstu fimm mörk Hauka.

Stjörnumenn voru aldrei langt undan og náðu reyndar forystu í stöðunni 8-7. Haukar þéttu þá raðirnar og komust í 10-13 en aftur komu heimamenn inn í leikinn. Sóknarleikur Hauka var ekki nógu smurður og klaufaleg mistök skiluðu heimamönnum auðveldum mörkum.

Haukar héldu með naumt forskot inn í hálfleikinn, 14-15 og sjá mátti á Aroni Kristjánssyni að hann var frekar óánægður með sína menn.

Barningurinn hélt áfram í seinni hálfleik og ekki líklegt lengi vel að annað liðið myndi stinga af. Um miðbik seinni hálfleiks fór þó aðeins að draga af Stjörnumönnum sem keyrðu á færri mönnum en Haukar og gestirnir náðu fjögurra marka forskoti, 19-23.

Lokakaflinn tilheyrði Haukum frá A til Ö og að lokum fögnuðu gestirnir sanngjörnum sigri, 26-32.

Af hverju unnu Haukar leikinn?

Vörn og markvarsla var til fyrirmyndar í seinni hálfleik. Haukar gátu róterað vel á sínu liði og nöguðu niður þrjóska Stjörnumenn hægt og bítandi. Liðið hjá Haukum er heilt yfir þéttara og stöðugra en hjá Stjörnunni og menn fóru ekkert á taugum þó að Stjörnumenn væru að blása hressilega niður hálsmálið

Hverjir stóðu upp úr?

Atli Már Báruson skoraði átta mörk úr tíu skotum og hjó endalaust á hnútinn í seinni hálfleik. Orri skilaði sínu og bætti vítanýtinguna heldur betur frá síðasta leik. Björgvin var traustur í markinu.

Tandri Már Konráðsson var besti maður Stjörnunnar í bæði vörn og sókn. Starri Friðriksson átti góða innkomu í hægra hornið.

Hvað gekk illa?

Markvarslan var ekki nógu góð hjá heimamönnum. Brynjar Darri og Adam vörðu aðeins sjö skot allan leikinn og það nægir ekki gegn Haukum.

Hvað gerist næst?

Haukar fá Val í heimsókn í sannkölluðum stórleik að Ásvöllum og Stjörnumenn taka á móti KA í TM-höllinni í Garðabæ.

Orri Freyr Þorkelsson lék vel í kvöld.vísir/bára

NFL sendingar frá Bjögga

„Þetta var ekki gott í fyrri hálfleik og við töpuðum alltof mörgum boltum. Ég veit ekki hversu mörgum við töpuðum en held að þeir voru 9-10 talsins. Það var mjög lélegt. Svo kemur þéttleiki og varnarleikur í seinni hálfleik og þannig vinnum við leikinn,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson, hornamaður Hauka.

Haukar hafa fengið nokkra nýja leikmenn fyrir veturinn. Hvernig er liðið að slípast saman?

„Við höfum æft mjög mikið, þrátt fyrir smá hlé í ágúst og höfum náð góðum takti í liðið. Við erum að slípast betur saman við nýju mennina með hverjum leiknum. Við erum á réttri leið.“

BJörgvin Páll Gústavsson er einn þeirra sem Haukar fengu og Orri segir það notalegt fyrir hraðupphlaupsmann að hafa mann með slíka sendingargetu í markinu.

„Klárlega gott mál. Þetta eru auðvitað bara bombur fram völlinn. Ég veit eiginlega ekki hvar ég ætti að finna betri sendingar fram í heiminum. Þetta eru eiginlega bara NFL-sendingar og það er fáránlega gott að fá svona bolta fram. Leikurinn í kvöld var frekar þéttur allur og lítið um hraðupphlaup en það er geggjað að vera með svona gaur fyrir aftan sig að dæla boltum fram.“

Haukr misnotuðu fimm víti gegn ÍBV en Orri var öruggur lengstum í leiknum í kvöld. Síðasta vítið fór þó forgörðum. Hvað era ð gerast á línunni?

„Úff, ég veit það ekki. Ég fékk boltann þó aftur og skoraði. Ætli það sé ekki ágætis sárabót, “ sagði Orri að lokum.

Patrekur er svekktur með uppskeruna en segir að mótið sé rétt að byrja.vísir/AFP

Patti: Mótið er rétt að byrja

Patrekur Jóhannesson bíður enn eftir fyrsta sigrinum með Stjörnunni á þessari leiktíð.

„Ég er ánægður með 40 mínútur en að sama skapi er ég mjög óánægður með síðustu 20 mínúturnar. Skotin eru máttlaus og menn bara þora ekki. Það var lélegt. Ljósi punkturinn var að við spiluðum ágætan handbolta í 40 mínútur og gáfum Haukum hörkuleik en svo voru þeir bara sterkari.“

Voru menn orðnir þreyttir seinustu mínúturnar? Haukar virtust hreyfa liðið meira og keyra betur á öllum hópnum?

„Við missum Dag Gautason meiddan af velli og það var ekki gott. Vonandi er hann ekki alvarlega meiddur en þetta leit ekkert sérstaklega vel út. Við hreyfðum liðið ágætlega og það er engin afsökun fyrir tapinu.“

Eitt stig að loknum þremur leikjum er ekki ásættanlegt fyrir Stjörnuna en mótið er vissulega rétt að fara af stað.

„Draumurinn var náttúrulega að taka sex stig og kannski alveg raunhæft að stefna á fjögur stig. Við hefðum getað unnið Selfoss og ég geri kröfu á að við vinnum Gróttu. Staðan er sú að við höfum eitt stig og það er hörku vinna framundan hjá okkur. Mótið er langt og það er nóg eftir,“ sagði Patti brattur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.