Körfubolti

Kallaði nafn Kobe eftir að hafa sett niður flautuþrist sem tryggði Lakers sigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Davis fagnar sigurkörfu sinni gegn Denver Nuggets.
Anthony Davis fagnar sigurkörfu sinni gegn Denver Nuggets. getty/Kevin C. Cox

Anthony Davis tryggði Los Angeles Lakers sigur á Denver Nuggets með flautukörfu í öðrum leik liðanna í úrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Lokatölur 105-103, Lakers í vil sem er 2-0 yfir í einvíginu.

Í þann mund sem leiktíminn rann út setti Davis niður þriggja stiga skot og tryggði Lakers sigurinn. Lakers lék í sérstökum treyjum til heiðurs Kobe Bryant heitnum í leiknum og eftir að Davis setti niður skotið kallaði hann nafn hans.

„Þetta var sérstakt augnablik fyrir sérstakan leikmann,“ sagði LeBron James um Davis sem var stigahæstur í liði Lakers með 31 stig. LeBron skoraði 26 stig og tók ellefu fráköst.

Nikola Jokic skoraði 30 stig fyrir Denver og gaf níu stoðsendingar. Serbinn var sjóðheitur undir lokin, skoraði síðustu ellefu stig Denver og kom liðinu 102-103 yfir þegar 20 sekúndur voru eftir.

Í lokasókninni klikkaði vörn Denver hins vegar og Lakers tók tvö sóknarfráköst. Þegar 2,1 sekúnda var eftir fékk Lakers innkast undir körfunni, Rajon Rondo tók það og fann Davis sem setti niður þrist sem tryggði liðinu sigur.

Jamal Murray skoraði 25 stig fyrir Denver og Jokic 30 en hinir þrír í byrjunarliðinu voru aðeins með sextán stig samtals.

Denver eru reyndar vanir að lenda undir í úrslitakeppninni og koma til baka en þeir gerðu það bæði gegn Utah Jazz og Los Angeles Clippers.

Þriðji leikur Lakers og Denver fer fram aðfaranótt miðvikudags. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×