Handbolti

Dreymir um að komast út á völl og spila hand­bolta að nýju

Runólfur Trausti Þórhallsson og Svava Kristín Grétarsdóttir skrifa
Hafdís fagnar í leik með Fram á síðustu leiktíð.
Hafdís fagnar í leik með Fram á síðustu leiktíð. Vísir/Bára

Landsliðsmarkvörðurinn og leikmaður fram í Olís-deild kvenna í handbolta, Hafdís Renötudóttir, hefur oft fengið skot í höfuðið. Í sumar fékk hún höfuðhögg sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Skömmu eftir að hún hóf æfingar að nýju fékk hún annað högg og hefur ekki enn náð sér.

Svava Kristín Grétarsdóttir ræddi við hina 23 ára gömlu Hafdísi í Sportpakka Stöðvar 2 í kvöld. Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.

„Fyrsta höggið fæ ég á landsliðsæfingu í sumar og er frá í þrjár vikur. Svo fæ ég annað högg og í seinna skiptið var ég sjúklega hrædd, stressuð og fékk pirringskast yfir því að hafa fengið annað högg því nú var ég hrædd við boltann. Hrædd við að fá heilahristing. Það er hættulegt að fá högg á höfuðið. Sama hvort þetta sé bolti, líkamspartur eða hvað sem er,“ sagði Hafdís.

Hafdís í leik með íslenska landsliðinu.Vísir/Vilhelm

„Mig langar að setja pressu á þjálfara að leyfa ekki leikmönnum að ákveða sjálfir hvort þeir verði áfram inn á eða ekki heldur taka þá út af og bíða eftir niðurstöðum hvort þeir hafi fengið heilahristing eða ekki.“

Bataferlið hefur verið langt og strangt. Hafdís er enn að fá einkenni en er þó á lokaskrefum bataferlisins eins og hún orðar það.

„Ég ætla að sníða markmannshreyfingar mínar þannig að ég geti varið andlitið á mér og höfuðið,“ sagði Hafdís um hvernig þetta mun hafa áhrif á hana í framtíðinni.

Að lokum ræðir Hafdís það að þurfa leggja skóna á hilluna alltof snemma líkt og margur markvörðurinn hefur þurft að gera undanfarin ár vegna höfuðmeiðsla.

Hafdís hefur á ferli sínum leikið með Fram og Stjörnunni hér heima ásamt því að leika með SønderjyskE í Danmörku og HK Sola í Noregi. Alls hefur hún leikið 26 landsleiki fyrir íslenska A-landsliðið.

Klippa: Vill ekki þurfa að leggja skóna á hilluna vegna höfuðhögga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×