Handbolti

Líklegt að Valskonur fái spænskt lið en meiri óvissa hjá Mosfellingum

Sindri Sverrisson skrifar
Valskonur urðu Íslandsmeistarar 2019 en ekki voru krýndir Íslandsmeistarar í vor vegna kórónuveirufaraldursins.
Valskonur urðu Íslandsmeistarar 2019 en ekki voru krýndir Íslandsmeistarar í vor vegna kórónuveirufaraldursins. VÍSIR/BÁRA

Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals í handbolta kvenna mæta liði frá Spáni eða Sviss í 2. umferð Evrópubikarsins. Lið frá fjórum löndum koma til greina sem mótherjar karlaliðs Aftureldingar.

Vegna kórónuveirufaraldursins ríkir reyndar vissulega óvissa um hvort að af leikjum í keppnunum verði, en í fyrradag tilkynntu Valsmenn til að mynda að þeir hefðu dregið karlalið sitt úr keppni í Evrópudeildinni. Sáu þeir sér ekki annað fært vegna ferðatakmarkana og sóttvarnaákvæða.

Kvennalið Vals á samkvæmt áætlun að spila í Evrópubikarnum 10. eða 11. október, og aftur viku síðar. Dregið verður næsta þriðjudag um það hvaða lið verður mótherji Vals, en vegna faraldursins hefur liðum verið raðað í flokka fyrir dráttinn, eftir svæðum í Evrópu.

Þrjú spænsk lið og eitt svissneskt lið koma til greina sem andstæðingar Vals. Spænsku liðin eru Rocasa Gran Canaria, Rincon Fertilidad Malaga og Granollers. Svissneska liðið er Rotweiss Thun.

Afturelding á að spila í nóvember og FH í desember

Karlalið Aftureldingar fær einnig að vita það á þriðjudag hver mótherji liðsins verður, í 2. umferð Evrópubikarsins. Leikjum þar hefur verið frestað til 14./15. og 21./22. nóvember. FH mætir til leiks í 3. umferð sem fram fer í desember.

Afturelding gæti dregist gegn Cocks eða Helsinki frá Finnlandi, Sviesa Vilnius eða Granitas-Karys frá Litháen, Tallinn frá Eistlandi eða Kolstad frá Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×