Körfubolti

LeBron James og Zion Williamson voru báðir í stuði á móti hvorum öðrum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James var frábær í nótt.
LeBron James var frábær í nótt. Getty/ Jonathan Bachman

LeBron James hafði engan Anthony Davis sér við hlið í nótt en það kom ekki að sök því James leiddi Los Angeles Lakers til sigurs á útivelli á móti New Orleans Pelicans.

LeBron James var með frábæra þrennu í 122-114 sigri Los Angeles Lakers í New Orleans en hann bauð upp á 34 stig, 13 fráköst og 12 stoðsendingar.

Anthony Davis gat ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla og nýliðinn Zion Williamson hefur aldrei skorað meira í einum leik en heimamenn í New Orleans Pelicans átti ekki svör við Kónginum.

Zion Williamson var frábær eins og James en hann skoraði 35 stig á 33 mínútum og úr aðeins 16 skotum.



„Augljóslega þá var þetta stórbrotin frammistaða hjá LeBron James. Hann var að hitta úr ótrúlegum skotum alls staðar af vellinum og sýndi það svo enn á ný þegar þeir tvídekkuðu hann að hann er einn af bestu sendingamönnunum í deildinni. Hann galopnaði vörnina þeirra,“ sagði Frank Vogel, þjálfari Los Angeles Lakers.

Kyle Kuzma skoraði 20 stig fyrir Lakers og Kentavious Caldwell-Pope kom með 13 stig inn af bekknum.  Gamli Lakers maðurinn Lonzo Ball var nálægt þrennunni með 19 stig, 9 stoðsendingar og 9 fráköst. Derrick Favors var með 12 stig og 14 fráköst.



Giannis Antetokounmpo var líka magnaður með Milwaukee Bucks og bauð upp á 41 stig, 20 fráköst og 6 stoðsendingar í 93-85 sigri.

Nikola Jokic bauð upp á flotta þrennu í sigri Denver Nuggets á meisturum Toronto Raptors en hann skoraði 23 stig, tók 18 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.





Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Golden State Warriors - Washington Wizards 110-124

New Orleans Pelicans - Los Angeles Lakers 114-122

Denver Nuggets - Toronto Raptors 133-118

Sacramento Kings - Detroit Pistons 106-100

Los Angeles Clippers - Philadelphia 76ers 136-130

Minnesota Timberwolves - Dallas Mavericks 91-111

Charlotte Hornets - Milwaukee Bucks 85-93





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×