Enski boltinn

Leicester rifjar upp mark Jóhannesar Karls frá miðju: „Betra en hjá Beckham“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhannes Karl lék með Leicester í tvö ár, tæplega 80 leiki.
Jóhannes Karl lék með Leicester í tvö ár, tæplega 80 leiki. vísir/getty

Leicester City birti í dag myndband á Twitter af mögnuðu marki sem Jóhannes Karl Guðjónsson skoraði í leik liðsins gegn Hull City á þessum degi fyrir fyrir nákvæmlega 14 árum síðan.

Jóhannes Karl skoraði alls níu mörk fyrir Leicester tímabilið 2005-06 og var markahæsti leikmaður liðsins í öllum keppnum ásamt Mark de Vries og Iain Hume með níu mörk.

Fallegasta mark Jóhannesar Karls á tímabilinu kom í 3-2 sigri á Hull á heimavelli í ensku B-deildinni 4. mars 2006.

Þegar sex mínútur voru eftir, í stöðunni 2-2, fékk Jóhannes Karl boltann frá Patrick Kisnorbo rétt fyrir utan miðjuhringinn.

Skagamaðurinn sá að Boaz Myhill, markvörður Hull, var alltof framarlega, lét vaða frá miðju og boltinn endaði í netinu.

„Betra en hjá Beckham,“ sagði lýsandinn og vísaði til frægs marks Davids Beckham fyrir Manchester United gegn Wimbledon 1996.

Mark Jóhannesar Karls gegn Hull má sjá hér fyrir neðan.



Tímabilið 2005-06 var eitt það besta á ferli Jóhannesar Karls en Skagamaðurinn var valinn leikmaður ársins hjá Leicester þetta tímabil.

Sumarið 2006 fór Jóhannes Karl svo til AZ Alkmaar í Hollandi sem var þá undir stjórn Louis van Gaal. Jóhannes Karl lék alls 77 leiki fyrir Leicester og skoraði tíu mörk.

Ári seinna skoraði eldri bróðir Jóhannesar Karls, Bjarni, einnig frægt mark frá miðju í leik ÍA og Keflavíkur í Landsbankadeildinni. En það er önnur og lengri saga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×