Handbolti

Þjálfari Stjörnunnar sagðist vera að fara mæta Leikfélagi Vestmannaeyja í bikarúrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Sigtryggsson átti erfitt með að halda andlitinu eftir að hann skírði ÍBV liðið upp á nýtt.
Rúnar Sigtryggsson átti erfitt með að halda andlitinu eftir að hann skírði ÍBV liðið upp á nýtt. Skjámynd/RÚV

Stjarnan er komið í bikarúrslitaleikinn í Coca Cola bikarnum í handbolta eftir sigur á Aftureldingu í undanúrslitunum í gær. Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki lengi að byrja sálfræðistríðið fyrir úrslitaleikinn á morgun.

Stjarnan vann 22-21 endurkomusigur á Aftureldingu í sínum undanúrslitaleik en áður höfðu Eyjamenn slegið út Hauka í öðrum hörkuleik, 27-26.

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, var tekin í sjónvarpsviðtal á RÚV strax eftir leikinn. Hann var ekki lengi að skjóta á mótherja Stjörnunnar í bikarúrslitaleiknum þegar hann var spurður út í leikinn á móti ÍBV.

Gunnar Birgisson tók viðtalið fyrir Rúv og spurði Rúnar um það hvort hann væri farinn eitthvað að kortleggja ÍBV-liðið í huganum fyrir bikarúrslitaleikinn.

„Leikfélag Vestmannaeyja?“ svaraði Rúnar Sigtryggsson og brosti. Hann átti síðan mjög erfitt með sig eftir að hann skírði ÍBV liðið upp á nýtt.

„Við þurfum að pæla vel í því hvernig við tæklum þá,“ sagði Rúnar hálfhlæjandi. Rúnar er þarna augljóslega að skjóta á Eyjamenn fyrir að vera með leikaraskap inn á handboltavellinum.

Það verður vissulega fróðlegt að sjá hvernig Eyjamenn taka þessu skoti en það hefur hingað til ekki boðað gott að kveikja eldana í Eyjum, þar sem hjartað slær.

Stjarnan hefur ekki unnið bikarinn í þrettán ár og komst síðast í bikarúrslitin fyrir sjö árum síðan. ÍBV vann bikarinn síðast fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×